11 þúsund hafna orkupakkanum

Um 11 þúsund hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um …
Um 11 þúsund hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að hafna orkupakkanum. mbl.is/Sigurður Bogi

Yfir 11 þúsund hafa skrifað undir áskorun til þingmanna að hafna þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um innleiðingu þriðja orkupakkans. „Þetta hefur bara verið á netinu og erum við að fara að hefja skriflega söfnun,“ segir Frosti Sigurjónsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, í samtali við mbl.is.

Hann segir markmiðið að með söfnuninni á vef Orkunnar okkar vera að fá þingið til þess að hafna tillögunni og þannig knýja sameiginlegu EES-nefndina til þess að taka málið til umfjöllunar að nýju og að þar verði krafist að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans.

Undirskriftasöfnunin á netinu beinist fyrst og fremst að Alþingi, en sú skriflega mun einnig beinast að forseta Íslands, að sögn Frosta. Hann segir það vissulega svo að þingsályktunartillögur rati ekki inn á borð forseta, en að í eins veigamiklu máli sem í raun er ígildi samnings sem felur í sér þjóðréttarskuldbindingar ætti forsetinn að koma að málinu.

„Ef Alþingi hyggst ekki hlusta á þjóðina munum við bjóða þeim sem skrifað hafa undir á netinu einnig að skrifa undir áskorun til forseta,“ segir Frosti.

mbl.is

Bloggað um fréttina