Ákæruvaldsins að ákveða

Jens Bernhard Herstad, verjandi manns sem sleppt var úr gæsluvarðhaldi …
Jens Bernhard Herstad, verjandi manns sem sleppt var úr gæsluvarðhaldi á fimmtudag, eftir að Lögmannsréttur Hálogalands mat það svo að ekki væri til staðar rökstuddur grunur á hendur skjólstæðingi hans, telur hann ekki munu sæta ákæru. Ákæruvaldið, Anja M. Indbjør saksóknari, eigi þó síðasta orðið þar. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

„Lögmannsrétturinn telur ekki rökstuddan grun liggja fyrir um samverknað hans í málinu, en málið á hendur honum hefur ekki verið fellt niður svo þetta [úrskurður Lögmannsréttar Hálogalands á fimmtudaginn] hefur enn sem komið er enga þýðingu fyrir minn hluta málsins,“ segir Jens Herstad, verjandi meints samverkamanns Gunnars Jóhanns Gunnarssonar í Mehamn-málinu, í samtali við mbl.is í dag.

„Ég met það ekki svo að hann eigi á hættu að verða ákærður,“ segir Herstad enn fremur, spurður út í hvort honum þyki líklegt að svo fari, þrátt fyrir úrskurð lögmannsréttar, „en það er ákæruvaldsins að taka afstöðu til þeirrar spurningar hvort efni séu til að ákæra.“

„Ég kýs að svara ekki þessari spurningu,“ segir Herstad, inntur eftir því hvað skjólstæðingur hans segist hafa aðhafst á vettvangi í Mehamn aðfaranótt laugardagsins fyrir réttri viku, þegar Gísla Þór Þórarinssyni sjómanni var ráðinn þar bani.

„Ákæruvaldið stýrir rannsókninni svo það er þess að ákveða næstu skref í málinu,“ segir Herstad að lokum, spurður þess hver nú verði framvinda málsins.

Eins og Torstein Pettersen rannsóknarlögreglumaður, sem fer með stjórn rannsóknarinnar, greindi mbl.is frá á fimmtudaginn gaf Gunnar Jóhann Gunnarsson lögreglu samfellda lýsingu á atburðarásinni aðfaranótt síðasta laugardags í yfirheyrslu á miðvikudaginn. Sagði Pettersen lögreglu hafa komið sér upp nokkuð skýrri mynd af því sem gerðist þótt enn væri mörgum spurningum ósvarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert