Hægir á tímanum í þyngdarleysi

Rakel Tómasdóttir, hönnuður og listamaður, lærði á brimbretti og prófaði …
Rakel Tómasdóttir, hönnuður og listamaður, lærði á brimbretti og prófaði frjálsa köfun á Balí í vetur og skilar sú upplifun sér í nýjum verkum hennar sem berja má augum á sýningunni VATN sem opnaði fyrir helgi. Ljósmynd/Aðsend

Hönnuðurinn og listamaðurinn Rakel Tomas leigði sér húsnæði á Laugaveginum fyrir skemmstu og á fimmtudag opnaði hún sýninguna VATN. Hún hefur því verið á bólakafi í vinnu en heppilega eru verkin hennar að þessu sinni einmitt undir áhrifum frá ansi svipaðri tilfinningu. Rakel eyddi nefnilega nokkrum vikum á Balí í vetur þar sem hún lærði á brimbretti og prófaði frjálsa köfun. Í frjálsri köfun er kafað án köfunarbúnaðs og því lengur sem kafarinn getur haldið niðri í sér andanum, því betra.  

Öldurnar ráða ferðinni

„Það er eitthvað við þetta þyngdarleysi og tímaleysi sem fylgir því að vera í kafi. Það hægist á hjartslættinum og það er eins og tíminn standi í stað í smá stund á meðan maður heldur niðrí sér andanum. Húð verður allt öðruvísi viðkomu og maður upplifir hitabreytingar í vatninu næstum eins og snertingu,” segir Rakel.

View this post on Instagram

Endurskinsmerki á bretti 🏳️⁣ ⁣#Bali

A post shared by Rakel Tomas (@rakeltomas) on Mar 5, 2019 at 1:00pm PST


„Á brimbrettinu ráða öldurnar svo ferðinni og þegar maður dettur er það eina í stöðunni að láta þær líða yfir sig og henda sér til þangað til maður kemst aftur upp til að anda.”
Rakel er ekki bara að vera ljóðræn: hjartað getur bókstaflega hægt á sér þegar mannskepnan heldur niðri í sér andanum hvort sem það er við köfun eða ekki.
Köfunarþjálfarinn hennar á Balí benti Rakel á að þegar hún hélt niðri í sér andanum og hægði þannig á hjartslættinum var eins og tíminn væri örlítið lengur að líða. Það minnti Rakel á erfið augnablik í hennar lífi.
„Stundum, þegar ég vil bara að allt stoppi, held ég ósjálfrátt niðri í mér andanum. Þarna skildi ég í fyrsta skipti af hverju.”
Rakel segir það að ferðast ein hafa styrkt sjálfsmynd hennar …
Rakel segir það að ferðast ein hafa styrkt sjálfsmynd hennar mikið og að það endurspeglist í myndunum. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfsöruggari, opnari og sterkari

„Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.”
-Steinn Steinarr

Á Balí var það þó ekki tíminn heldur vatnið sem átti hug Rakelar. Hana langaði til að endurskapa þyngdarleysið í myndunum sínum. Rakel hefur skapað sér gott orð fyrir teikningar sínar af andlitum í óhefðbundnum hlutföllum. Á verkunum á nýju sýningunni eru sum andlitin á myndunum hennar á hvolfi sem tákna þyngdarleysið og hún segir að í raun megi snúa myndunum hvernig sem er. Allt snýr upp og allt snýr niður.

„Það er nýtt fyr­ir mig að teikna lík­ama, hingað til hafa flest­ar mynd­irn­ar mín­ar verið af and­lit­um en mig langaði að lík­ams­tján­ing­in vísaði í þetta stjórn­leysi, þegar öld­urn­ar kasta manni til og maður ekk­ert við það ráðið,” seg­ir hún.

„Mér finnst mjög gam­an að fara í gegn­um mynd­irn­ar mín­ar eft­ir að smá tími hef­ur liðið frá því ég teikna þær og setja þær í sam­hengi við það sem var að ger­ast í líf­inu mínu á þeim tíma­punkti,” seg­ir Rakel. „Það er al­veg klár­lega teng­ing þarna á milli og ég get al­veg lesið í gegn­um allt sem var í gangi með því að skoða mynd­irn­ar. En það sem mér finnst gam­an að sjá núna er lík­ams­tján­ing­in í mynd­un­um og svip­brigðin eru að verða sjálfs­ör­ugg­ari, opn­ari og sterk­ari.”

Allt í einn hólk

Rakel segir það að ferðast ein hafa styrkt sjálfsmynd hennar mikið og að það endurspeglist í myndunum. 
„Balí var bara svo stórkostleg ferð í alla staði – ég hef sjaldan fengið jafn margar hugmyndir eða bara liðið jafn vel. Ég bjóst ekki endilega við því að mér myndi líða svona vel ein á ferðalagi en svo kom í ljós að þetta er bara fullkomið fyrir mig og einmitt það sem ég þarf á að halda í lífinu á þessari stundu,” segir hún.
Ferðalögunum fylgir reyndar einn vandi. Stærri myndirnar hennar, sem eru 50x70 cm passa ekki í handfarangurstöskuna og Rakel hefur ekki í hyggju að stækka við sig.
„Nú er bara að finna leið til að koma stórum myndum, öllum blýöntunum og helst einu borði, í hólk sem ég get ferðast með,” segir hún. „Ég mun finna út úr þessu, það er allt hægt.”
Sýningin VATN er staðsett á Laugavegi 27 og verður opin til 26. maí.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert