Logi vill gefa Ágústi annað tækifæri

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir vandræðalaust að gefa Ágústi …
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir vandræðalaust að gefa Ágústi Ólafi annað tækifæri. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er vandræðalaust fyrir mig að gefa honum annað tækifæri,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um að Ágúst Ólafur Ágústsson hafi snúið aftur til starfa á Alþingi í þættinum Þingvellir í morgun. Þá sagði hann einnig að þingflokkurinn væri einhuga í málinu.

Logi var spurður um yfirlýsingu Ungra jafnaðarmanna þar sem þeir lýsa yfir óánægju með að Ágúst Ólafur hafi snúið aftur til starfa á Alþingi á ný eftir að hafa verið áminntur af siðanefnd flokksins fyrir að hafa áreitt konu.

„Samfylkingin er 16 þúsund manna flokkur […] og það er alveg viðbúið í slíkum samtökum að það séu ólíkar skoðanir. Þannig er það örugglega líka í þessu máli,“ svaraði Logi.

„Ungir jafnaðarmenn höfðu sína afstöðu og ég get ekki gert neitt annað en bara borið virðingu fyrir því. En sjálfur hef ég haft þá skoðun að flokkur á ekki að hafa umburðalyndi til þess að umbera þessa hegðun eins og birtist þarna [í máli Ágústs Ólafs], en hann verður hins vegar að hafa umburðarlyndi til þess að gefa fólki tækifæri og hjálpa því aftur á lappir ef það sýnir skilyrðislausa iðrun. Það hefur auðvitað Ágúst gert,“ sagði formaðurinn.

Ákvað sjálfur að ganga lengra

„Komist var að þeirri niðurstöðu að Ágúst hafi brotið siðareglur flokksins, en það gæfi ekki tilefni til þess að hann segði af sér trúnaðarstörfum fyrir flokkinn,“ útskýrði Logi og sagðist ekki taka afstöðu til þess mats sem siðanefnd gerði. Hann sagði hins vegar að Ágúst Ólafur hafi sjálfur gengið lengra en siðanefndin lagði til með því að fara í leyfi til þess að meta stöðu sína.

„Þetta er um jólin og um jólin verður honum það ljóst að hann þarf að leita sér aðstoðar meðal annars vegna áfengissýki, svo hann fer í meðferð. Samhliða því hefur hann verið að skoða líf sitt, leitað til fjölda aðila og leitað aðstoðar og gert upp þessa hluti við sjálfan sig til þess að verða betri maður,“ sagði Logi.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Um víðan völl

Í þættinum fór Logi einnig yfir árangur Samfylkingarinnar í kosningum síðustu ár og nefndi meðal annars að átök innan Samfylkingarinnar í kjölfar kosninganna 2013 er einn þeirra þátta sem leiddi til þess að flokkurinn beið afhroð í kosningunum 2016, þegar hann fékk aðeins 5,7% fylgi.

Horfði formaðurinn einnig til framtíðar og sagði: „Við eigum eftir að sjá hræringar sem ýta flokkum saman. Í mjög mörgum málum þá erum við nálægt fólki innan Pírata, Viðreisnar og VG. Þetta eru allt nágrannar okkar með einum eða öðrum hætti.“

mbl.is