Enn grunaður um samverknað í Mehamn

Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörku.
Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörku. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

„Hann hefur þá stöðu enn að vera grunaður um samverknað,“ sagði Anja Mikkelsen Indbjør, lögmaður og handhafi ákæruvalds Finnmerkurlögreglunnar, þegar mbl.is ræddi við hana í dag og spurði út í réttarstöðu manns sem sleppt var úr gæsluvarðhaldi vegna Mehamn-málsins á fimmtudaginn í kjölfar úrskurðar Lögmannsréttar Hálogalands sem taldi ekki að rökstuddur grunur lægi fyrir um samverknað mannsins.

Jens Bernhard Herstad, verjandi samverkamannsins meinta, sagði í samtali við mbl.is á laugardaginn að hann mæti stöðuna svo, að skjólstæðingur hans ætti ekki von á ákæru en tók þó fram að sú ákvörðun væri alfarið ákæruvaldsins.

Telur rannsóknina sterka og góða

„Grunuðu hafa hvorir tveggja skýrt mál sitt fyrir lögreglunni. Málið er í rannsókn og ég kýs að tjá mig ekki um mitt mat á skýringum þeirra,“ sagði Indbjør enn fremur. „Ég get þó sagt að ég tel rannsókn málsins hingað til hafa verið sterka og góða [n. solid og god],“ sagði hún.

Það verður þó ekki Indbjør sem sækir málið fyrir héraðsdómi, hvort sem einn maður eða tveir sæta þar ákæru, málsmeðferðin þar er í raun keimlík alvarlegum sakamálum á Íslandi:

„Handhöfn ákæruvalds fer eftir refsirammanum,“ útskýrði Indbjør, „og refsiramminn í manndrápsmálum er 21 ár sem táknar að ríkissaksóknari [n. riksadvokaten] hefur forræði málsins samkvæmt 65. grein norsku hegningarlaganna. Honum er hins vegar heimilt að fela héraðssaksóknara [n. statsadvokaten] meðferð málsins. Þetta virkar því þannig að þegar málið er fullrannsakað hérna í umdæminu sendum við það áfram til héraðssaksóknara.“

„Lögreglan hefur á þessu stigi engin ný tíðindi af málinu,“ sagði Anja Mikkelsen Indbjør saksóknari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert