Ferðamönnum fækkaði um 18,5% í apríl

Ferðamönnum fækkaði um 18,5% í apríl á þessu ári miðað …
Ferðamönnum fækkaði um 18,5% í apríl á þessu ári miðað við sama mánuð í fyrra. mbl/Arnþór Birkisson

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 18,5% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Samtals voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um völlinn 120 þúsund í apríl, en voru 147 þúsund í apríl í fyrra. Þetta kemur fram í talningu Ferðamálastofu og Isavia.

Bandaríkjamenn og Bretar voru sem áður fjölmennustu hóparnir og telja saman um 35% ferðamanna. Ferðamönnum frá þessum þjóðum fækkaði þó einnig hvað mest. Þannig fækkaði Bandaríkjamönnum um 27% og voru þeir 26.477 í stað 36.274 í fyrra. Bretum fækkaði um 31,5% og voru þeir 15.644 í stað 22.841 í apríl í fyrra.

Frá áramótum hafa 578 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 7,9% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Þriðji fjölmennasti hópurinn kemur frá Þýskalandi. Fóru 7.625 ferðamenn þaðan um landið og fækkaði þeim um 4,8% milli ára. Brottfarir Pólverja voru í fjórða sæti, um 7.300 talsins og voru þeir 1,4% fleiri en árinu áður. Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Frakka, Dana, Kanadamanna, Norðmanna, Spánverja, og Svía.

Þegar markaðssvæði eru skoðuð má sjá að farþegum frá Bretlandi hefur fækkað um 33% í apríl, frá Norður-Ameríku um 28,2% og 17,3% frá Eyjaálfu. Fækkunin frá Norðurlöndum hefur verið 14,8% og frá Asíu 13,9%. Aðeins frá Austur-Evrópu er fjölgun og nemur hún 1,3%.

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli.
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Íslendingar duglegri að ferðast en í fyrra

Um 61 þúsund Íslendingar fóru utan í apríl í ár eða 15,4% fleiri en í apríl 2018. Frá áramótum hafa 185 þúsund Íslendingar farið utan eða 1,8% færri en á sama tímabili í fyrra.

Sjá má nánara yfirlit yfir fjölda ferðamanna á vefsíðu Ferðamálastofu.

mbl.is