Hærri greiðslur en lengri bið

Grunnsamningur um augasteinaaðgerðir við einkareknar augnlækningastofur rann út 1. maí.
Grunnsamningur um augasteinaaðgerðir við einkareknar augnlækningastofur rann út 1. maí.

Sjúktratryggingar Íslands (SÍ) eru langt komnar með undirbúning að formlegu innkaupaferli vegna augasteinaaðgerða, en grunnsamningur um slíkar aðgerðir við einkareknar augnlækningastofur rann út 1. maí. Í umfjöllum Morgunblaðsins um málið á laugardag heyrðust gagnrýnisraddir frá einkastofum í garð SÍ, sem sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem mátti sjá samanburð á greiðslum við aðgerðirnar.

Þar kom meðal annars fram að greiðslur hins opinbera vegna kaupa á augasteinaaðgerðum á einkastofum væru 30% meiri en á sjúkrahúsum. Einkareknar stofur fengju um 146 þúsund krónur fyrir hverja aðgerð, þar sem greiðslur hins opinbera eru að lágmarki 128.600, en Landspítalinn fengi greiddar ríflega 97 þúsund krónur frá hinu opinbera fyrir hverja aðgerð sem framkvæmd væri umfram þær aðgerðir sem rúmast innan almenns rekstrargrunns. Kostnaðarþátttaka sjúklinga væri aftur á móti hin sama og á einkastofu.

„Ég hefði haldið að munurinn væri miklu meiri,“ segir Jónmundur Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sjónlags sem var aðili að grunnsamningnum við SÍ. Hann kallar eftir því að Landspítalinn sýni fram á það hvernig þessi tala sé fundin er varðar kostnað á aðgerðum. Eflaust sé margt sem einkastofur þurfi að taka með í reikninginn sem ekki þurfi hjá sjúkrahúsunum.

„Til að fá samanburðarhæfa tölu þyrfti að taka kostnað við húsnæðisrekstur, allan fastakostnað, öll áhöld og tæki og alla yfirstjórn. Það er flókið verkefni í aðferðafræði að deila slíku út innan Landspítalans,“ segir Jónmundur og ítrekar virðisaukaskattinn sem einkareknu stofurnar greiði og renni í ríkissjóð.

Í tilkynningu SÍ kom einnig fram að eftir átak í styttingu biðtíma væri hann nú kominn niður í 2,1 mánuð eftir augasteinsaðgerðum á Landspítalanum. Hjá Sjónlagi væri hins vegar biðtíminn um 15 mánuðir eftir samþykki um styrk frá SÍ.

Hendur einkastofa bundnar

„Við stýrum því ekki hvar fólk óskar eftir að fá aðgerðina gerða. Það fer eftir eftirspurninni. Þegar því er haldið á loft að við höfum ekki staðið okkur er um að ræða mikinn misskilning á því hvernig kerfið virkar,“ segir Jónmundur. Sjónlagi hafi aðeins verið úthlutað 400 aðgerðum, um 33 á mánuði, sem annar ekki þeirri eftirspurn sem er eftir að komast að hjá stofunni. Hendur stofunnar hafi verið bundnar.

„Þær voru bundnar af því að við vorum bara með 33 aðgerðir á mánuði en eftirspurnin eftir aðgerðum hjá okkur var mun meiri. Það er gat í kerfinu, sem verður ekki uppfyllt með þeim aðgerðafjölda sem verið er að fjármagna,“ segir Jónmundur, en eftirspurn eftir augasteinaaðgerðum á landsvísu er talin vera um 3.300 aðgerðir á ári.

Ef til vill ekki líkað svörin

Í umfjöllun blaðsins á laugardag gagnrýndi Jónmundur samskiptaleysi við SÍ og að óskum Sjónlags um viðræður samnings hefði ekki verið svarað. „Svörin hafa verið veitt, en ef til vill hefur viðkomandi ekki líkað þau,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri SÍ, í samtali við Morgunblaðið. Báðir aðilar ættu að vita að samningurinn hafi verið að renna út og SÍ hafi ekki borið nein upplýsingaskylda til þess að láta vita af því umfram það sem þegar var gert.

María segir að aðilar hafi verið látnir vita af undirbúningi formlegs innkaupaferlis, en sú vinna hefur að nokkru leyti strandað á upplýsingaleysi frá einkareknu stofunum. Til dæmis er varðar innkaup á augnlinsum.

„Þetta er formlegra ferli og liður í að undirbúa það er að fá skýringar á kostnaði. SÍ hafa áður verið gagnrýndar fyrir að fylgja ekki lögum um opinber innkaup og við erum að reyna að laga það. Almennt er betra að geta valið um tíu aðila sem selja okkur þjónustu en bara tvo,“ segir María. Formlegt innkaupaferli sé langt komið, en ekki hægt að segja á þessari stundu hvenær það geti hafist. Þó innan mjög skamms tíma.

Varðandi innkaupsverð á augnlinsum segir María greinilegt að einkareknu stofurnar hafi ekki keypt slíkt á sambærilegu verði og Landspítalinn. Það sé þó líklegt að samhliða nýjum samningum um þessar aðgerðir verði leitað allra leiða til þess að fá hagstæðara verð á linsunum. Munurinn á greiðslum SÍ fyrir aðgerðir sem minnst var á hér áður skýrist þó ekki eingöngu af misdýrum linsum. Aðalatriðið sé að þjónustan sé góð á samkeppnishæfu verði og að biðin sé ekki of löng.

Þorri aðgerða á sjúkrahúsum

Samkvæmt tilkynningu sem Sjúkratryggingar Íslands sendu frá sér í kjölfar umfjöllunar SunnudagsMoggans á laugardag um stöðu augasteinaaðgerða er þörfin talin vera nálægt 3.300 aðgerðum á ári.

Landspítalinn hefur fjárveitingu fyrir 800 aðgerðum, en aukafé hefur verið veitt til þess að fjölga aðgerðum um 1.200 og eru þar nú gerðar um 2.000 aðgerðir á ári. Þá hefur Sjúkrahúsið á Akureyri einnig tekið að sér 100 aðgerðir ofan á þær sem gerðar eru fyrir hina föstu fjárveitingu.

Grunnsamningar hafi verið í gildi við tvær augnlækningastofur um að gera 400 aðgerðir á ári hvor um sig, sem er um 20% af þeim fjölda sem gerður er á Landspítala. Sá samningur rann út 1. maí, en SÍ vinnur nú að formlegu innkaupaferli um nýjan samning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert