Má heita Kusi en ekki Midian

Karlmannsnöfnin Neó, Liam og Kusi og kvenmannsnöfnin Snæsól og Kíra …
Karlmannsnöfnin Neó, Liam og Kusi og kvenmannsnöfnin Snæsól og Kíra voru samþykkt af mannanafnanefnd í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Mannanafnanefnd hefur samþykkt eiginnöfnin Neó, Liam og Kusi í karlkyni og Snæsól og Kíra í kvenkyni en hafnaði eiginnöfnunum Midian og Marzellíus í karlkyni.

Í úrskurðum nefndarinnar frá 24. apríl segir að nýtt eiginnafn þurfi að uppfylla öll fimm skilyrði fimmtu greinar laga um mannanöfn, meðal annars að nafnið geti tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli og brjóti ekki í bága við íslenskt málkerfi.

Kusi verður Kusa í eignarfalli og Neó tekur íslenska beygingu í eignarfalli: Neós.

Midian var hafnað sem karlmannsnafni þar sem það telst brjóta í bága við íslenskt málkerfi þegar það er borið fram eftir stafanna hljóðan þar sem í íslensku kemur einhljóðið a aldrei fyrir næst á eftir einhljóðinu i. Eiginnafninu Marzellíus var hafnað þar sem ritháttur nafnsins hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli samkvæmt lögum um mannanöfn.

mbl.is