Telur Landsrétt verða að fá aðstoð

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, telur að ríkisstjórnin þurfi að koma Landsrétti til aðstoðar. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, gagnrýndi ríkisstjórnina í dag fyrir aðgerðaleysi í málefnum Landsréttar. Hún líkti dómstólnum við bíl sem skrölti áfram á þremur hjólum, í fyrirspurn sinni til dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu í dag.

„Á morgun eru átta vikur, 56 dagar, frá því Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp sinn dóm í Landsréttarmálinu. Áður höfðu héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur fjallað um embættisfærslur Sigríðar Á. Andersen við skipan landsréttardómara og varð niðurstaðan ávallt sú að hún hefði brotið lög við þessa framkvæmd. Í hvert sinn sem dómur féll virtist þáverandi ráðherra vera ósammála niðurstöðunni og svo virðist sem henni hafi tekist að sannfæra samráðherra sína í ríkisstjórn og stjórnarþingmenn um að allir þrír dómstólarnir færu villur vega. Þetta hefur komið berlega í ljós enda hefur ríkisstjórnin að litlu leyti brugðist við því óvissuástandi sem ríkt hefur frá upphafi starfs Landsréttar í janúar 2018 og margítrekað hefur verið varað við hér og annars staðar,“ sagði Helga Vala.

Hún sagði þó ekki hægt að hanga í því „sem hefði átt að gera“ heldur þyrfti að horfa á hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera núna. Hún rifjaði upp áskorun frá dómstólasýslunni um að fjölga dómurum við réttinn, eftir að ljóst var að fjórir þeirra myndu ekki dæma í málum um óákveðinn tíma. Helga Vala sagði málafjöldann fyrir Landsrétti ekki fara minnkandi, nema síður væri og að það væri alvarlegt fyrir þau viðkvæmu mál sem rekin eru fyrir dómstólnum.

„Það verður að koma Landsrétti til aðstoðar. Því spyr ég hæstvirtan dómsmálaráðherra: Er ekki rétt að fara að sinna því ábyrgðarhlutverki sem þið hafið að hafa réttarkerfið á Íslandi starfhæft?“ sagði Helga Vala.

Ósammála því að réttarkerfið sé óstarfhæft

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra svaraði Helgu Völu og byrjaði á því að lýsa sig alfarið ósammála því að dómskerfið á Íslandi væri ekki starfhæft. Hún sagði að fyrir átta vikum, er dómur MDE féll, hefði tekið við ferli sem fólst í því að greina dóminn.

Hún sagði síðan að það væru þrjár vikur síðan óskað var eftir endurskoðun og að það kunni að taka nokkrar vikur að fá svar við því, en bréf þess efnis er raunar ekki enn farið af stað til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra ítrekaði að ekki yrði gripið …
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra ítrekaði að ekki yrði gripið til neinna aðgerða í málefnum Landsréttar fyrr en niðurstaða fengist í það hvort yfirdeild MDE myndi taka málið upp. mbl.is/Hari

„Það var tekin ákvörðun um að óska eftir endurskoðun og það tekur tíma að vinna slíkt erindi. Ég skammast mín ekki fyrir að taka þann tíma sem ég tel að þurfi að taka til að það sé almennilega gert. Ég á ekki erfitt með að vera gagnrýnd fyrir það að vanda mig of mikið,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Ég sagði þegar ég tók þá ákvörðun að við ættum að óska eftir endurskoðun að ég ætlaði ekki að grípa til annarra aðgerða fyrr en við fengjum úr því skorið hvort málið yrði tekið fyrir eða ekki,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti því við að henni fyndist stundum í umræðunni eins og það væri „ekkert mál eða lítið mál og sjálfsagt“ að velja einhverja tillögu til þess að laga stöðuna og fá óumdeildan 15 manna Landsrétt.

„Ég hef hins vegar ekki séð neina tillögu sem lagar stöðuna sem við erum í,“ sagði Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert