Tour of Reykjavík ekki haldið í ár

Frá Tour of Reykjavík.
Frá Tour of Reykjavík. mbl.is

Hætt hefur verið við að halda götuhjólakeppnina Tour of Reykjavík í ár, en hún hefur verið haldin undanfarin þrjú ár sem tveggja daga keppni. Var fyrri dagleið yfir Mosfellsheiði og á Þingvelli og Nesjavallaleiðina til baka, en sú síðari um götur Reykjavíkur.

Kjartan Freyr Ásmundsson, markaðs- og þróunarstjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur sem hefur haft yfirumsjón með keppninni, segir í samtali við mbl.is að fjörmögnun viðburðarins hafi alltaf verið erfið. Undanfarin tvö ár hefur WOW air verið aðalbakhjarl keppninnar. Nú er því ekki að dreifa eftir að félagið hætti starfsemi og staðan því enn erfiðari.

Kjartan segir að stefnt sé að því að halda keppnina aftur á næsta ári. „Það er mjög leiðinlegt að þetta fari svona. Þetta gekk að mestu leyti mjög vel í fyrra,“ segir hann og bætir við að þar sem um umfangsmikinn viðburð með dýra umgjörð sé að ræða komi óvissa með fjármögnun illa við keppnina.

Tour of Reykjavík var fyrst haldið árið 2016. Síðari daginn það ár var hjólað nokkuð veglegan hring um borgina sem krafðist umfangsmikilla lokana. Nokkurrar óánægju gætti meðal ökumanna vegna þessa, en síðari tvö árin var gerð breyting þannig að lokunum var stillt í hóf á meðan að marksvæði var fært niður í miðbæ.

Kjartan segir að með því hafi umgjörðin verið einfölduð og óánægjuröddum fækkað. Hann tekur fram að einstaka óánægjuraddir séu ekki ástæða þess að keppnin hafi verið felld niður í ár. Ítrekar hann að reynt verði að halda keppnina á næsta ári.

Sumir íbúar voru ósáttir með lokanir á meðan á keppni …
Sumir íbúar voru ósáttir með lokanir á meðan á keppni stóð. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert