Bátur sökk úti fyrir Hvammstanga

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Mannbjörg varð er bátur sökk úti fyrir Hvammstanga um hálffimmleytið í morgun. Þrír voru um borð í bátinum sem var á leið í land þegar leki kom upp.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send af stað, en henni var svo snúið við þegar fregnir bárust af því að björgunarsveitir á staðnum hefðu náð að bjarga mönnunum úr bátnum áður en hann sökk.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru mennirnir allir heilir á húfi, en ekki er enn vitað hvað olli lekanum.

Báturinn var skammt frá landi er hann sökk og er lögreglan á Norðurlandi vestra nú með málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert