Greiða ekki atkvæði fyrr en í næstu viku

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er afar mótfallin því að …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er afar mótfallin því að þungunarrof verði heimilt fram til 22. viku meðgöngu. mbl.is/Hari

Atkvæðagreiðsla um frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof mun ekki fara fram fyrr en í næstu viku, að þriðju umræðu lokinni, en tvær breytingatillögur hafa komið fram sem lúta að því að stytta þann 22 vikna tímaramma sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Hiti var í þingmönnum er rætt var um frumvarpið í dag, en umræðan hófst á fjórða tímanum og lauk núna rétt eftir kl. 20 í kvöld. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að málið hefði verið útrætt í annarri umræðu, líka það sem varðaði breytingatillögurnar tvær sem fram hafa komið.

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, var ávítt af Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis og nokkrum fjölda þingmanna, fyrir ummæli sem hún lét falla í umræðum um fundarstjórn forseta, áður en þriðja umræðan hófst.

Inga sagði að ljóst væri að það væri markmið þingsins að frumvarpið næði fram að ganga í þeirri mynd sem það er núna.

„Það hefur þessi salur sannarlega sýnt með frábærum húrrahrópum og gleðihljóðum þegar við ætlum að taka ákvörðun um það að 22 vikna gamalt ófullburða barn verði drepið í móðurkviði. Ég mun alltaf segja nei,“ sagði Inga og þá fór kliður um þingsal og heyrðist einhver þingmanna hrópa á Ingu að skammast sín. Það sagðist hún ekki gera.

Þingforseti bað þingmenn í kjölfarið um að gæta orða sinna og sagði að hann myndi ekki líða „orðbragð eða framgöngu af þessu tagi“.

„Þetta er algjör viðbjóður“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði um ummæli Ingu Sæland, að svona gerði maður ekki.

„Þetta er mikið hitamál, en maður getur ekki leyft sér að tala með þeim hætti sem að háttvirtur þingmaður hefur gert hér í þessu máli. Þetta eru alvarleg mál, þessar ákvarðanir eru aldrei teknar af léttúð. Þetta mál hefur verið hérna í þinginu og fengið faglega meðferð í langan tíma og allir þeir þingmenn sem að sitja hér eiga vel að hafa getað kynnt sér þetta mál í hörgul,“ sagði Helga Vala.

„En að nota þessi orð sem að hafa fallið hér, þetta er algjör viðbjóður og ég bara vil biðja um að við reynum að stilla okkur,“ sagði Helga Vala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert