Ísland tók við formennskunni

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra tekur við formennsku norðurskautsráðsins af Timo …
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra tekur við formennsku norðurskautsráðsins af Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, í dag. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Ísland tók við formennsku í norðurskautsráðinu í morgun á fundi ráðherra aðildarríkjanna átta í Rovaniemi í Finnlandi. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók formlega við formennskunni fyrir Íslands hönd af Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að Guðlaugur hafi kynnt formennskuáætlun Íslands í ræðu sinni í dag. Ber áætlunin heitið „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum.“ Þar segir að „starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu“. Er því lögð megináhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku auk fólks á norðurslóðum.

Auk þeirra Guðlaugs og Soini voru á fundi ráðsins utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Rússlands, Noregs, Svíþjóðar, Kanada og Danmerkur. Dönum fylgdu einnig ráðherrar frá Grænlandi og Færeyjum. Mun Íslands gegna formennsku ráðsins í tvö ár, en samhliða því mun Ísland beita sér fyrir auknu samstarfi við efnahagsráð norðurslóða, en Ísland gegnir einmitt formennsku þar næstu tvö árin.

Málefni hafsins

Íslenska formennskan hyggst beina sjónum að „bláa lífhagkerfinu þar sem skoðað er hvernig nýta megi líftækni og nýsköpun til að stórauka verðmæti sjávarafurða og draga úr lífrænum úrgangi frá vinnslu sjávarfangs. Einnig verður lögð sérstök áhersla á baráttu gegn plastmengun í höfunum.“

Þá mun Landhelgisgæsla Íslands leiða samstarf strandgæsluráðs norðurslóða er snýr að bættu öryggi sjófarenda

Haldið verður áfram að vinna að „verkefni sem miðar að því að leita grænna orkulausna fyrir einangruð norðurslóðasamfélög“. Þá hyggst Ísland beita sér fyrir jafnréttismálum á sviði norðurskautsráðsins og „kynna íslenska aðferðafræði í forvörnum við áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna“.

Fulltrúar Íslands

Með formennsku Íslands fylgir formennska í embættismannanefnd ráðsins og gegnir Einar Gunnarsson sendiherra því hlutverki fyrir Íslands hönd. Hann var áður fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og þar áður ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins.

Bryndís Kjartansdóttir sendifulltrúi er fulltrúi Íslands í embættismannanefnd norðurskautsráðsins.

Einar Gunnarsson sendiherra.
Einar Gunnarsson sendiherra. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert