Mikið fjárhagslegt bakland andstæðinga

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, segir ljóst að fleiri styðji …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, segir ljóst að fleiri styðji orkupakkan eftir því sem þeir kynni sér málið betur. mbl.is/hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, tók til máls um þriðja orkupakkann í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag og sagði að vakið hafi athygli hennar „sú staðfesting að upplýsing hefur mikil áhrif. Að jákvæðum gagnvart málinu fjölgar verulega eftir því sem fólk kynnir sér málið betur. Það kemur manni kannski ekkert sérstaklega á óvart.“

Vísaði hún til skoðanakönnunar sem framkvæmd var fyrir Fréttablaðið um afstöðu Íslendinga til þriðja orkupakkans. Þar sögðust 48,7% þeirra sem tóku afstöðu mótfallin samþykkt þriðja orkupakkans, 29,6% eru hlynnt því og 21,7% hlutlaus.

Í könnuninni kom einnig fram að stuðningur við samþykkt þriðja orkupakkans væri meiri meðal þeirra sem segjast hafa kynnt sé málið vel en þeirra sem sögðust hafa kynnt sér málið lítið eða ekkert. Hvergi var þó birt hvort þetta ætti einnig við í tilfelli þeirra sem séu andvígir innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

„Það er ekki hlutverk stjórnmálamannsins að elta skoðanakannanir, en það er mikilvægt að hlusta á raddir fólks og meta hagsmuni heildarinnar. Slíkt hafa ráðherrarnir gert og þingmenn margir einnig,“ sagði Áslaug Arna. Þá sagði hún að unnið hafi verið að því að koma réttum upplýsingum á framfæri og að það hafi borið árangur.

Stórfé

„Mesti krafturinn hefur farið í það að leiðrétta rangfærslur og halda því á lofti hvað felst í málinu og hvað felst ekki í málinu. Það má líka velta upp þeirri spurning hvort við hefðum mátt gera betur og upplýsa almenning á fyrri stigum. En það er nú ekki alltaf auðvelt að vekja athygli fólks á EES-málum,“ sagði nefndarformaðurinn.

Þá sagði Áslaug Arna að sífellt væri auðveldara að koma upplýsingum til fólks, en á sama tíma auðveldara að dreifa rangfærslum og villandi skilaboðum. „Stjórnvöld keppast nú við að leiðrétta slík skilaboð sem komið er á framfæri með, að því er virðist vera, stórfé í auglýsingum á allskonar miðlum og þessar rangfærslur eiga sér greinilega mikið fjárhagslegt bakland.“

mbl.is