Ekki síður hús fyrir íslenskan almenning

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.
Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Nordal, for­stöðumaður Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar, segir mikið fagnaðarefni að framkvæmdir á Húsi íslenskunnar hefjist von bráðar en tilkynnt var um framkvæmdirnar í gær.

„Þetta er langþráður áfangi. Það eru ellefu ár síðan ákveðið var að fara af stað í þessa framkvæmd. Það hefur tekið mun lengri tíma að koma þessu áfram en við héldum í upphafi,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. Segir hún að húsið eigi að taka um þrjú ár í byggingu.

Hefur grunnur hússins staðið nánast óhreyfður frá því fyrsta skóflustungan var tekin í grunni þess árið 2013 en framkvæmdunum var frestað í kjölfar efnahagshrunsins. Á þessum árum hefur mikill gróður og trjátegundir vaxið á svæðinu sem oft er kallað „hola íslenskra fræða“. 

Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, afhendir …
Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, afhendir framtíðarskóglendi það sem vaxið hefur óáreitt í 6 ár í holu íslenskra fræða. mbl.is/Hari

„Það er búin að vera sjálfsáning þarna ofan í grunninum. Það er svo fallegt hvað það er mikil gróska þarna og nú kemur húsið inn í þessa grósku. Þetta er gróskumikill staður og gott að vera þarna,“ segir Guðrún.

Lundur í nafni Árna Magnússonar

Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar var haldinn í morgun og sleit Guðrún fundinum með því að afhenda Skógræktarfélagi Reykjavíkur trjáplöntur sem skotið höfðu rótum í grunninum.

Segir Guðrún að starfsmönnum Árnastofnunar hafi þótt fallegt að taka plönturnar upp og koma þeim á nýjan stað þar sem þær myndu vera til yndisauka fyrir borgarbúa og aðra. 

Að hennar sögn ætlar Skógræktarfélag Reykjavíkur að búa til lund í Heiðmörk í nafni Árna Magnússonar þar sem trjáplöntunum verður komið fyrir.

„Við erum mjög glöð að það tókst að koma trjánum í hendur Skógræktarfélagsins. Það er bara skemmtilegt að hafa komið þessum fallega sjálfsána gróðri á góðan stað áður en við förum að vinna í grunninum og byrjum að byggja. Þetta er svo umhverfisvænt og alveg í anda okkar stofnunar,“ segir Guðrún. 

„Þetta er eins og ákveðin kolefnisjöfnun hvað varðar fundinn, að gróðursetja á móti. Það er bara fallegt finnst okkur og vel við hæfi.“

Skemmtileg tilviljun

Þegar Hús íslenskunnar verður tilbúið mun starfsemi Árnastofnunar ásamt starfsemi íslenskudeildar Háskóla Íslands færast yfir í bygginguna. Segir Guðrún að húsið verði ekki síður hús fyrir íslenskan almenning.

„Þetta er hús sem á að þjóna þeim sem koma til að fræðast um íslenskuna og fara á sýningu á handritunum. Þarna getum við boðið upp á miklu betri þjónustu en við getum núna og miðlað betur okkar merka arfi til gesta og gangandi. Þannig að við erum mjög spennt að þróa það starf áfram í þessu nýja húsi,“ segir hún.

Segir Guðrún að um einskæra tilviljun hafi verið að ræða að ársfundurinn hafi verið haldinn degi eftir tilkynninguna um að gengist hefði verið við samningum um framkvæmdirnar. „Þetta var skemmtileg tilviljun, en svona virkar heimurinn stundum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert