Sendi fjölmiðlum myndir af fyrirbura

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sendi fjölmiðlum landsins í kvöld …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sendi fjölmiðlum landsins í kvöld myndir af stúlku, sem fæddist á 23. viku meðgöngu. mbl.is/Eggert

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sendi fjölmiðlum landsins í kvöld sex myndir af stúlku, sem fæddist á 23. viku meðgöngu. Stúlkan er núna að verða fjögurra ára gömul og voru myndirnar sendar fjölmiðlum með „vitund og vilja“ foreldra stúlkunnar, að sögn Ingu.

Inga hefur lagst hart gegn frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem rætt hefur verið um í þinginu undanfarið. Frumvarpið mun heimila konum að undirgangast þungunarrof til loka 22. viku meðgöngu og er mikið hitamál, innan þings og utan.

Í gær var Inga ávítt af þingforseta fyrir ummæli sín í ræðustól Alþingis, þar sem hún sagði þingmenn gefa frá sér húrrahróp og gleðihljóð þegar verið væri að „taka ákvörðun um það að 22 vikna gamalt ófullburða barn verði drepið í móðurkviði“.

Tölvupóstinum frá Ingu fylgdi skeyti frá öðru foreldri stúlkunnar, þar sem kom fram að hún væri „fullkomlega heilbrigð“ og „ánægð með lífið“.

mbl.is