„Þurfum einhvers konar málalok“

Þrír mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar. Síðast …
Þrír mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar. Síðast sást til hans í Whitehall-hverf­inu í Dublin klukk­an rétt rúm­lega ell­efu fyr­ir há­degi laug­ar­dag­inn 9. fe­brú­ar. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi í febrúar, hefur opnað heimasíðu þar sem finna má allar upplýsingar um Jón. Fjölskyldan er gjörsamlega ráðþrota vegna hvarfs Jóns Þrastar en hyggst ekki gefast upp. „Staðan er óbreytt, eina sem hefur gerst er að tíminn hefur liðið. En að öðru leyti er rannsóknin á mjög svipuðum stað,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, í samtali við mbl.is.

Þrír mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jóns Þrast­ar Jóns­son­ar. Rann­sókn máls­ins hef­ur lítið sem ekk­ert miðað áfram frá því að björg­un­ar­sveit kembdi leit­ar­svæði í borg­inni í byrj­un mars og ábend­ing barst um að Jón Þröst­ur hefði mögu­lega ferðast með leigu­bíl.

Síðast sást til Jóns Þrast­ar í Whitehall-hverf­inu klukk­an rétt rúm­lega ell­efu fyr­ir há­degi, laug­ar­dag­inn 9. fe­brú­ar. Jón Þröst­ur lenti í borg­inni kvöldið áður en hann hvarf en hann ætlaði að taka þátt í pókermóti sem hófst á miðviku­deg­in­um í vik­unni á eft­ir.

Heimasíðan, jonjonssonmissing.com, er fyrst og fremst stofnuð til að halda utan um allar upplýsingar á einum stað sem og til að ná til fólks sem er ekki á Facebook, en fjölskyldan hefur hingað til notað Facebook til að koma upplýsingum til skila til almennings og óskað eftir aðstoð.

Fjöl­skylda Jóns Þrast­ar hef­ur verið með ann­an fót­inn á Írlandi frá því að leit­in að hon­um hófst en aðeins hefur dregið úr veru fjölskyldunnar í borginni eftir því sem tíminn líður og enginn úr fjölskyldunni er í Dublin þessa stundina. „En við erum að flakka fram og til baka. Bróðir minn kom heim fyrir viku síðan og er að fara aftur út,“ segir Davíð.  

Lögreglan getur ekki lokað málinu án þess að láta vita

Fjölskyldan á í góðum samskiptum við írsku lögregluna og fundar reglulega með fulltrúum hennar í Dublin. „En það er voða lítið að frétta, því miður. En við opnuðum þessa heimasíðu, erum virk á samfélagsmiðlum og höldum góðu sambandi við lögregluna. Það er voða lítið sem við getum annað gert akkúrat eins og staðan er núna,“ segir Davíð.  

Von er á upplýsingum frá lögreglunni á næstu dögum um stöðu rannsóknarinnar. „Það er ekki búið að loka málinu og þeir geta ekki gert það án þess að láta okkur vita og gefa okkur færi á að andmæla,“ segir Davíð og bætir við að lögreglan hafi frá upphafi verið opin með rannsóknina. „En þeir vilja ekki segja eftir hvaða kenningum þeir vinna eða hvað þeir telja líklegt og hvað ekki.“

Langlíklegast að hann sé ekki á lífi

Davíð segist hins vegar gera sér grein fyrir að líklegt verður að teljast að Jón Þröstur sé ekki á lífi. „Fyrir mitt leyti veit ég alveg að það er langlíklegast að hann er ekki á lífi en það er ekki hægt að útiloka neitt. Hvort sem hann er á lífi eða ekki breytir það því ekki að við þurfum einhvers konar málalok.“

„Það þarf að finna einhvern meðalveg. Lífið heldur áfram og maður reynir að vera jákvæður og allt það, en á meðan að halda málinu gangandi án þess að það sé alltaf í undirmeðvitundinni og dragi mann niður,“ segir Davíð.

mbl.is