Er það pylsa eða pulsa?

Viðskiptavinir Bæjarins bestu geta valið hvort orðið þeir nota. Edda …
Viðskiptavinir Bæjarins bestu geta valið hvort orðið þeir nota. Edda Ívarsdóttir átti hugmyndina. mbl.is/sisi

Vegfarendur um miðborgina hafa tekið eftir því að á ljósastaur á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis hefur verið komið fyrir LED-skiltum með orðunum pylsa og pulsa. Skiltin eru við hlið Bæjartorgs, þar sem er að finna hinn heimsfræga pylsuvagn Bæjarins bestu.

Pulsu/pylsuskiltið er hluti af hönnun torgsins og er ætlað að gleðja og skapa stemningu á torginu. Edda Ívarsdóttir, borgarhönnuður og starfsmaður hjá umhverfis- og skipulagssviði, er hugmyndasmiðurinn og hönnuðurinn.

„Það er mikilvægt í hönnun svæða að tengja við það sem gerir þau sérstök og draga fram sérkenni svæða á einhvern hátt og er skiltið hluti af því. Þetta svæði hefur alltaf verið einhvers konar baksvæði, en á því hefur þó alltaf komið saman mikill fjöldi fólks. Ástæða þess er pylsustandur sem staðið hefur á horninu í 80 ár. Það er því hægt að segja að flestir Reykvíkingar og gestir borgarinnar tengi staðinn beint eða óbeint við pylsur/pulsur,“ segir Edda.

Skemmtilegur orðaleikur

„Við höfum alltaf notað orðið pylsa, aldrei pulsa,“ segir Baldur Ingi Halldórsson, framkvæmdastjóri Bæjarins bestu, en fyrirtækið hefur starfað síðan 1937. „En þessi orðaleikur er skemmtilegur og ef kúnninn vill kalla þetta pulsu í stað pylsu þá ræður hann því alveg,“ segir Baldur. Hann bætir því að hugmyndin að skiltunum sé alfarið frá borginni komin. „Ég í raun náði bara að stýra því að liturinn væri okkar litur.“ Sem sagt rauður.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert