Skaðabótaskylda eintóm fantasía

Carl Bau­den­bacher, fyrr­ver­andi dóm­ari við EFTA-dóm­stól­inn, mætti fyrir utanríkismálanefnd í …
Carl Bau­den­bacher, fyrr­ver­andi dóm­ari við EFTA-dóm­stól­inn, mætti fyrir utanríkismálanefnd í dag. mbl.is/​Hari

Carl Bau­den­bacher, fyrr­ver­andi for­seti EFTA-dóm­stóls­ins, kom fyrir fund utanríkismálanefndar í morgun. Þar sagði hann að í grunninn yrðu Íslendingar að innleiða þriðja orkupakkann, því annars væri EES-samningnum teflt í tvísýnu.

Á fundinum voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Íslandi nema Miðflokksins.

„Grein 102.5 í EES-samningnum, sem gerir Íslendingum kleift að beita neitunarvaldi sínu, hefði þurft að vera notuð áður en samið var um orkupakkann í sameiginlegu EES-nefndinni,“ segir Baudenbacher. Eftir að það var gert segir hann að lítið sé hægt að gera, án þess að fara í mjög erfiða stöðu gagnvart EES-samningnum. Þetta væri ekki rétta málið til þess að beita ákvæðinu.

Þá sagði hann þá sem bera saman Icesave-samninginn og þetta mál fara með fleipur. „Að bera Icesave-samninginn saman við þetta er að bera saman epli og appelsínur. Icesave var ákveðið löglega, ekki pólitískt. Orkupakkinn er pólitískur og ákvörðunin er ekki ákveðin í rétti,“ sagði hann.

Þá segir hann að jafnt Svisslendingar, Íslendingar, Norðmenn og Lichtenstein-búar yrðu að sjá hið góða í samningnum. „Ef Ísland segir nei yrðu allir að segja nei, þar sem EFTA-ríkin þurfi að mæla einum rómi. Lichtenstein og Noregur verða ekki ánægðir með höfnun Íslendinga á þessu. Olíu- og orkuráðherrann norski hefur sagst vona til þess að Ísland myndi samþykkja þetta,“ sagði Baudenbacher.

Andstæðingar nýta sér veikleika ESB

Baudenbacher sagði viðbúið að stjórnmálamenn andsnúnir orkupakkanum nýti höggstað þann sem er að finna á Evrópusambandinu um þessar mundir til styrktar málstað sínum. Evrópusambandið sé í vandræðum, það hafi verið berskjaldað fyrir „miðfælnum“ öflum undanfarið, það er þeim sem hugnast ekki aukin miðstýring þess eða vilja beinlínis út. Grikkland, innflytjendavandinn, Ítalía og Austurríki, Brexit.

Baudenbacher segir ESB til dæmis orðið harðara við Sviss, sem annars hefur fengið að velja og hafna nokkuð eftir eigin geðþótta, eftir allan erfiðleikann með Breta, sem sagt Brexit. Svisslendingar vildu sumir fara í Evrópudómstólinn (ECJ) en andstaðan var of mikil. Með þessu vildu þeir sumir fara bakdyramegin inn í Evrópusambandið. 2017 gaf ESB þá Sviss sérstakan gerðardóm sem svo þurfti að hlíta ákvörðunum Evrópudómstólsins í einu og öllu. ESB lokaði þá á Sviss að hluta frá innri markaði ESB vegna þess að þeir voru seinir að samþykkja þá ráðstöfun.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði um þá staðreynd að háværustu andstæðingar pakkans nú hefðu ekki mótmælt honum þegar þeir voru við stjórnartaumana 2013-2016. „Kemur það þér á óvart?“ spurði Logi Baudenbacher. „Og erum við búin að missa tækifærið til þess að mótmæla pakkanum?“

Þessu svaraði Baudenbacher: „Ég býst ekki við að það sem ég segi hér falli í kramið hjá Morgunblaðinu,“ sagði hann og uppskar hlátur fundarmanna. „En þessir fyrrum ráðherrar eru margir kunnir mér og eru góðir menn. Ef þeir ákveða að fara í aðra átt núna og skipta um skoðun þá er það bara þeirra mál.“

„Ég myndi þó ekki segja að við erum búin að missa tækifærið en lögmenn munu segja: þið hefðuð átt að mótmæla fyrr,“ sagði hann.

Framsal á auðlindum?

„Erum við að missa stjórn yfir auðlindunum og þar af leiðandi eigið fullveldi?“ spurði Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna.

„Það er á hreinu að ef fólk ræðst á verkefni eins og þetta gera þau það með slagorðum,“ sagði hann fyrst um andstæðingana. „Það sem ég hef reynt að gera er að sýna lögfræðilega fram á að málstaðurinn gengur ekki upp. Heldurðu að Norðmenn hefðu gengið í þetta samkomulag ef í því hefði falist framsal á auðlindum? Þeir eru alveg jafnuppteknir af sínu fullveldi og þið,“ sagði hann svo. „Um sæstrenginn ráðið þið ein og engin annar,“ sagði hann. Það væri þannig annað mál. Skaðabótaskylda Íslands á grundvelli fjórfrelsisins ef við neitum að gera sæstreng segir Baudenbacher þá að sé „eintóm fantasía“ og myndi aldrei gerast.

Ari Trausti Guðmundsson, VG, Logi Einarsson, XS, Inga Sæland, Flokki …
Ari Trausti Guðmundsson, VG, Logi Einarsson, XS, Inga Sæland, Flokki fólksins mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert