Vilja miklu meira sjálfvirkt eftirlit

Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, á fundinum í morgun.
Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, á fundinum í morgun. mbl.is/Hari

Gríðarlegt magn af ábendingum berst dagsdaglega frá íbúum Reykjavíkurborgar til borgaryfirvalda um það sem betur má fara í samgöngumálum borgarinnar. Þetta er á meðal þess sem kom fram í erindi Þorsteins R. Hermannssonar, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, á morgunverðarfundi um umferðaröryggi í Norræna húsinu í morgun.

Þorsteinn fór í erindi sínu yfir ýmis gögn sem varpa ljósi á það hvar rétt sé að forgangsraða í umferðaröryggismálum í Reykjavík. Til að mynda væru borin saman gögn um slysatíðni annars vegar og hraðamælingar lögreglu hins vegar til þess að para saman slysastaðina og hraðakstur til þess að varpa ljósi á sambandið þar á milli.

„Mikilvægur þáttur hjá okur líka er að við höfum reynt að fá skólabörn til þess að teikna upp leiðirnar sem þau fara í skólann,“ sagði Þorsteinn en farið yrði aftur í slíkt átak í vor. „Þetta hjálpar okkur líka að forgangsraða. Hvar eru flestir krakkar að þvera götur og labba yfir á leið í og úr skólanum. Við teljum gríðarlega mikilvægt að reyna að forgangsraða öryggisaðgerðum á þær leiðir sem flest börn eru að ganga.“

„Þetta eru þessir óvörðu vegfarendur“

Þorsteinn sagði að gögn sýndu að alvarlegustu slysin ættu sér stað þar sem annars vegar væri um að ræða bifreið og hins vegar annað hvort gangandi eða hjólandi vegfarendur. „Þetta eru þessir óvörðu vegfarendur.“ Þar á meðal fólk á leið í og úr strætisvögnum.

„Þetta er í okkar huga alveg augljós hópur sem við þurfum að setja sérstakan fókus á, að reyna að bæta öryggi þeirra sem eru gangandi, hjólandi og nota almenningssamgöngur. Af því að þar verða alvarlegu slysin og banaslysin í Reykjavík.“

Þorsteinn sagði að aukin notkun sjálfvirkra hraðamyndavéla hefði haft mikil áhrif og sannað gildi sitt. „Við viljum sjá miklu meira sjálfvirkt eftirlit og innleiða miklu meiri snjalltækni í það áf því að við höfum takmarkaðan mannafla í lögregluna og annað. Því meira sem við getum gert af sjálfvirku eftirliti, því betra.“

Reykjavíkurborg væri gagnrýnd fyrir að setja upp hraðahindranir víða en borgaryfirvöld vildu miklu fremur koma upp auknu rafrænu eftirliti með myndavélum í stað þess að koma upp slíkum hindrunum. „Við viljum beita tækninni meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert