Íhugar dómstólaleiðina vegna bóta

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður eins hinna sýknuðu í Guðmundar- …
Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður eins hinna sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, útilokar ekki að leitað verði til dómstóla til að knýja fram bætur.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður eins hinna sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir ríkisstjórnina hafa fest sig í viðræðum og sáttaumleitunum við aðila málsins og aðstandendur þeirra. Hann útilokar ekki að leitað verði til dómstóla til að knýja fram bætur. 

Hinir sýknuðu hafa ekki fengið formleg boð um bótagreiðslur og sagði Ragnar í Speglinum á RÚV í kvöld að þær bótafjárhæðir sem þeim standi til boða séu of lágar miðað við fordæmi í málinu. Hann segir að ríkisstjórnin hefði átt að leggja til veglegar bætur.

All­ir dóm­felldu í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu sem fengu mál sín end­urupp­tek­in fyr­ir Hæsta­rétti síðasta haust og voru í september síðastliðnum sýknaðir í Hæstarétti af ákæru um morð.

Ríkisstjórnin hafi sett sér þak

Ragnar segir að lesa megi það úr óformlegum viðræðum að ríkisstjórnin hafi sett sér þak og sagt við sína talsmenn að fara ekki upp fyrir tilteknar fjárhæðir, sem hann segir upphaflega hafa verið 400 milljónir og síðar 600 milljónir. Segir hann það aðeins tíunda hluta þess sem dæmdur var í Hæstarétti 1983 til þeirra sem sátu saklausir í gæsluvarðhaldi vegna sama sakarefnis í sama fangelsi, á sama tíma.

En hversu háar bætur fara hinir sýknuðu fram á?

„Það er til einn hugsanlega fordæmisgefandi dómur sem fjallar um fjóra menn sem voru sviptir frelsi í 105 daga árið 1976 út af sama sakarefni á sama tíma og í sama fangelsi og þetta fólk sem var sýknað í fyrra. Þessir fjórir gæsluvarðhaldsfangar voru ekki ákærðir og ekki dæmdir. Málinu lauk þannig að þeir fengu bætur sem, framreiknaðar frá 1976, eru 56 milljónir króna og það gerir þá 500.000 krónur á dag og ég sem lögmaður verð að benda þeim sem ég vinn fyrir á þetta fordæmi. Það er ekki við annað fordæmi að styðjast beinlínis,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.  

Ragnar segir að ekki sé hægt að nefna eina tölu en hann telji það eðlilegt að bætur hækki eftir því mönnum er haldið lengur frelsissviptum í fangelsi.

Sex­menn­ing­arn­ir sem voru sak­felld­ir. Efri röð f.v.: Sæv­ar Ciesi­elski, Erla …
Sex­menn­ing­arn­ir sem voru sak­felld­ir. Efri röð f.v.: Sæv­ar Ciesi­elski, Erla Bolla­dótt­ir og Kristján Viðar Viðars­son. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son. Erla fékk ekki mál sitt end­urupp­tekið en all­ir hinir dóm­felldu hafa nú verið sýknaðir af því að hafa banað Guðmundi og Geirfinni. mbl.is

Bjóst við að samið yrði um bætur hratt

Ragnar gagnrýnir einnig hversu langur tími er liðinn frá því að hinir dómfelldu voru sýknaðir án þess að formlegt boð um bótagreiðslur hafi borist. „Ég bjóst nú við að það yrði samið um bætur mjög hratt en þetta fór í hálfgerðan vandræðagang hjá ríkisstjórninni. Það eru ekki hafnar neinar samningaviðræður þar sem er skipst á rökum um fjárhæðir vegna þess að annar aðilinn býr sér bara til ramma og segir að inn í þennan ramma verði að fella samkomulagið,“ segir Ragnar.

Hann segir mikilvægt að ljúka málinu sem fyrst og útilokar ekki að leita til dómstóla. „Auðvitað vill fólk ekki standa í þessu til eilífðarnóns. Menn þurfa að finna eitthvað sem er ásættanlegt og ljúka málinu. En ef að ríkisstjórnin hefur fest sig í málinu og getur ekki farið úr því hjólfari þá sé ég ekki að það séu margar aðrar leiðir en dómstólaleiðin, en það þarf mikinn styrk og mikinn kjark til að leysa svona mál sem ríkisstjórn, það þarf styrkleika og það þarf stórhug.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert