Stefna á Akureyri stefnir hátt

Matthías Rögnvaldsson og Róbert Freyr Jónsson við borðtennisborð á góðri …
Matthías Rögnvaldsson og Róbert Freyr Jónsson við borðtennisborð á góðri stund. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Tveir kunningjar á Akureyri fengu þá hugmynd fyrir 15 árum að gera eitthvað skemmtilegt og létu ekki sitja við orðin tóm heldur stofnuðu tölvufyrirtæki. Það fékk nafnið Stefna og er í dag eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki á landsbyggðinni og hagur þess eykst ár frá ári. „Þetta er alltaf jafn skemmtilegt,“ segir Matthías Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Stefnu og annar stofnenda fyrirtækisins, en hinn er Róbert Freyr Jónsson, sölustjóri þess.

Áður en Stefna varð til var Matthías þjónustustjóri hjá Skrín, hýsingar- og ráðgjafarfyrirtæki í tölvugeiranum á Akureyri, og Róbert var verslunarstjóri hjá Radíónausti. Leiðir þeirra lágu saman vegna starfa þeirra og þeir fengu sér stundum kaffibolla saman. Dag einn spurði Matthías Róbert hvort þeir ættu ekki að gera eitthvað skemmtilegt saman einhvern tímann. „Róbert hafði svo samband við mig einhverjum mánuðum síðar og spurði mig hvort ég hefði verið að meina þetta. Og við slógum til,“ rifjar Matthías upp.

Þetta var í apríl 2004 og þeir fengu fljótlega vinnuaðstöðu í Foldu-húsinu hjá Sambandsverksmiðjunum, gömlu Gefjunarbúðinni, og innan tíðar bættist Birgir Haraldsson í hópinn, en hann var þá kerfisstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Eitt gerviblóm og eldhúsborðið hennar mömmu

Fljótlega hófu þeir félagar rekstur tölvuskóla, buðu upp á tölvuviðgerðir og opnuðu verslun með tölvuvörur. „Við áttum enga peninga og byrjuðum hreinlega á að spyrja fólk hvort það þyrfti ekki að losa sig við eitt og annað. Margir voru tilbúnir að rétta okkur hjálparhönd; Guðbrandur forstjóri og Jón Hallur fjármálastjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa vissu til dæmis um töluvert af skrifborðum og stólum þar á bæ sem ekki var verið að nota og gáfu okkur. Við fengum líka borð og stóla í nokkrum skólum. Við keyptum spónaplötur, söguðum og settum ofan á borðin, og máluðum með skipamálningu sem okkur var gefin,“ segir Matthías. „Við vorum með eitt gerviblóm, fengum eldhúsborðið hennar mömmu, kaffikönnur, hnífapör og bolla frá öðrum mömmum og ísskáp frá ömmu einhvers. Ýmsan tölvubúnað fengum við svo gefins hér og þar. Þannig hófst útgerðin.“

Með Norðurlöndin í sigtinu

Ekki leið á löngu þar til starfsmenn Stefnu hófu að smíða vefumsjónarkerfið Moya og í kjölfarið fór fyrirtækið að bjóða upp á alls kyns lausnir og heimasíðugerð. Fljótlega fékk Stefna viðskiptavini á borð við Samherja, Háskólann á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heklu og bílaleiguna Höld. Öll þessi fyrirtæki eru enn í viðskiptum við Stefnu.

Núna eru starfsmenn Stefnu 27 og þeim hefur fjölgað um tvo til fjóra á hverju ári undanfarið í samræmi við 20-30% árlegan vöxt fyrirtækisins. Meirihluti starfsmanna er á Akureyri, en auk þess er fyrirtækið með starfsstöð í Kópavogi og tveir starfsmenn búa í Svíþjóð og sinna þaðan fjarvinnu. Spurður hvort til standi að færa út kvíarnar til annarra landa segir Matthías að það hafi vissulega verið rætt. „Okkar markmið er að sækja á Norðurlöndin og við gerum það vonandi fyrr en síðar.“

Matthías segir að staðsetningin á Akureyri sé ótvíræður kostur. Nálægðin við háskólasamfélagið hafi styrkt fyrirtækið, en um tíma var tölvunarfræði kennd við HA og talsverður hluti starfsmanna Stefnu kom beint úr því námi. „Stefna væri klárlega ekki það sem hún er í dag ef Háskólans á Akureyri hefði ekki notið við,“ segir Matthías.

Snjallsímar breyttu miklu

Á þeim 15 árum sem Stefna hefur starfað hafa orðið miklar breytingar í vefsíðugerð og öðrum tölvumálum. Matthías segir að ein helsta breytingin hafi orðið þegar snjallsímar urðu almenningseign og aðlaga þurfti vefi að þessum nýju tækjum. „Vefumferð fer að stórum hluta fram í gegnum símana í dag og vefsíður verða sífellt mikilvægari þáttur í rekstri fyrirtækja sem setja meiri metnað í þær en áður,“ segir hann.

Liðlega 1.000 vefir eru nú í loftinu á vegum Stefnu. Þegar leitað er til fyrirtækisins með vefsíðugerð í huga er byrjað á því að setjast niður, meta þörfina og hvaða tilgangi síðan á að þjóna. „Við búum síðan til grind í samráði við viðskiptavininn og síðan vefinn sjálfan. Hugsanlega eru einhverjar forritunarlausnir sem þarf að huga að. Vefurinn er svo afhentur og við kennum á hann. Hugmyndin á bak við alla okkar vefi er að þeir séu sjálfbærir þannig að viðskiptavinurinn geti viðhaldið honum sjálfur. En við erum líka með starfsfólk til að sinna því fyrir þá sem af einhverjum ástæðum gera það ekki sjálfir.“

Eitt af þeim verkefnum sem Stefna hefur haft með höndum er vefur og tölvukerfi nýopnaðra Vaðlaheiðarganga. Þar hannaði Stefna svokallað bakkerfi til að tengja saman ýmis kerfi sem eru m.a. innheimtukerfi, gagnagrunnur Samgöngustofu, gjaldheimtukerfi og myndavélakerfi. Matthías segir að það verkefni hafi verið bæði krefjandi og skemmtilegt.

Ennþá skemmtilegt eftir 15 ár

Spurður hvað sé fram undan hjá Stefnu segir Matthías að á borðinu séu mörg og fjölbreytt verkefni, m.a. í opinbera geiranum sem Stefna hefur fengið eftir útboð en fyrirtækið þjónustar um helming allra sveitarfélaga á landinu. Þá eru nokkrir stórir vefir á teikniborði Stefnu. Er þetta ennþá skemmtilegt eftir 15 ár? „Já, þetta er það. Verkefnin eru skemmtileg og svo erum við svo heppin að vinna með frábæru fólki, starfsmannavelta er lítil og mikil samheldni í hópnum.“

Þrátt fyrir að mikið sé að gera á skrifstofum Stefnu er reglulega gripið þar í borðtennisspaða, enda alvöruborð til iðkunar þeirrar íþróttar á vinnustaðnum. Engum sögum fer þó af árangri við borðtennisborðið. Það sem unnið er við skrifborð starfsmanna fer hins vegar ekki fram hjá neinum; það birtist á tölvuskjám þúsunda landsmanna á degi hverjum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert