Telja Ísland mikilvæga samstarfsþjóð

Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í bresku ríkisstjórninni.
Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í bresku ríkisstjórninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bretar líta ekki aðeins á Ísland sem mikilvæga samstarfsþjóð á sviði viðskipta heldur einnig í ljósi mikilvægrar landfræðilegrar legu landsins. Það mikilvægi á eftir að aukast. Þetta segir Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í ríkisstjórn Bretlands, í samtali við mbl.is, en hann er kom til Íslands í dag og mun í heimsókninni ræða við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um leiðir til aukinna viðskipta á milli landanna.

„Mikilvægi Íslands þegar kemur að landfræðilegri legu er miklu meira en íbúafjöldi landsins segir til um,“ segir Fox. Þar skipti ekki síst máli aukin umsvif Rússa á norðurslóðum og möguleikar á vaxandi skipaferðum um svæðið. Fox segir að íslensk stjórnvöld hafi reynst breskum ráðamönnum afar vel í tengslum við fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hvatt þá til að sjá kostina við útgönguna.

Fox í heimsókn hjá Arctic Trucks í dag.
Fox í heimsókn hjá Arctic Trucks í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ríkisstjórn Íslands hefur verið gríðarlega hjálpleg í gegnum allt þetta ferli og hvatt Bretland til þess að sjá jákvæðar hliðar málsins á sama tíma og margir landar mínir vilja ekki sjá þær. En [íslenska] ríkisstjórnin hefur reynst okkur mjög vel og hvatt okkur dyggilega. Hún er ein af fyrstu ríkisstjórnunum til þess að ljúka samningi vegna mögulegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings.“

Spurður hversu líklegt sé að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án útgöngusamnings segir Fox ljóst að því lengri tíma sem það tekur að fá útgöngusamning ríkisstjórnarinnar samþykktan í breska þinginu því meiri verði líkurnar á að annað hvort verði hætt við útgönguna, með því að draga formlega til baka ákvörðun breskra stjórnvalda um að hefja útgönguferlið, eða að sagt verði skilið við sambandið án samnings.

Á meðan á heimsókninni hjá Arctic Trucks stóð.
Á meðan á heimsókninni hjá Arctic Trucks stóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Myndu sigrast á erfiðleikunum

Fox segir að ef hætt yrði við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandið yrði það blaut tuska í andlitið á breskum kjósendum, en meirihlutinn kaus með útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016. Slík ákvörðun yrði fullkomlega ólýðræðisleg, að fela kjósendum að taka ákveðna ákvörðun en neita síðan að framkvæma hana. Þetta myndi, að hans mati, verða til þess að grafa mjög undan tiltrú kjósenda á bresku stjórnmálastéttinni.

„Útganga án samnings er ekki heppilegasta leiðin. Henni myndu fylgja áskoranir þegar kæmi að einingu breska konungsríkisins sem og efnahagslega. En sú leið er miklu æskilegri en að yfirgefa Evrópusambandið ekki,“ segir Fox. Ef Bretland færi úr sambandinu án samnings myndi það kalla á ákveðna erfiðleika en ráðherrann segist telja að Bretar gætu vel sigrast á þeim. Betra væri þó útganga með samningi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem við hins vegar getum ekki gert er að segja ekki skilið við Evrópusambandið. Það hefði hugsanlega miklar hörmungar í för með sér pólitískt,“ segir ráðherrann. Spurður hversu vel Bretland sé undirbúið fyrir það að yfirgefa sambandið án samnings segir hann að undirbúningur fyrir þann möguleika haldi áfram og að Bretar geti auðveldlega verið klárir fyrir það í lok október þegar gert er ráð fyrir útgöngu þeirra.

„Það er skynsamt fyrir ábyrga ríkisstjórn að undirbúa sig fyrir alla möguleika.“

mbl.is

Bloggað um fréttina