Vill afnema „krónu á móti krónu“-skerðingu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja strax til nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, sem fyrsta skref í átt að nýju örorkulífeyriskerfi í almannatryggingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Samráðshópurinn hafði það hlutverk að móta framfærslukerfi sem styður við það markmið starfsgetumats að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að tillögur hópsins fela í sér umtalsverðar breytingar á núgildandi greiðslukerfi og nýjar tegundir greiðslna. Samráðshópurinn starfaði samhliða faghóp um mótun og innleiðingu starfsgetumats, sem skilaði ráðherra skýrslu í febrúar.

Ásmundur Einar hefur ákveðið að leggja strax til nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, sem fyrsta skref í átt að nýju örorkulífeyriskerfi í almannatryggingum. Með þeim verði dregið úr áhrifum annarra tekna örorkulífeyrisþega á sérstaka uppbót vegna framfærslu og svokölluð „krónu á móti krónu“ skerðing afnumin.

Í tilkynningunni segir að almenn samstaða hafi verið um að endurskoða þurfi lög um almannatryggingar sem og uppbyggingu lífeyristrygginga almannatrygginga, bæði hvað varðar elli og örorku. Hafa margir starfshópar og nefndir unnið að þeirri endurskoðun allt frá árinu 2005. „Nýgengi örorku hér á landi hefur aukist jafnt og þétt í öllum aldurshópum á síðustu árum en á árinu 2016 var það í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, og við því þarf að bregðast,“ er haft eftir Ásmundi Einari.

Vilji innan ríkisstjórnarinnar um samráð um breytingar á kerfinu

Þá segir hann hann mikinn vilja innan ríkisstjórnarinnar að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Fyrsta skref stjórnvalda í þeim efnum er að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga leggur til að greiðslur almannatrygginga skiptist í sjúkragreiðslur, endurhæfingargreiðslur, virknigreiðslur og örorkulífeyri auk þess sem tekin verða upp sveigjanleg hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, en nánari grein er gerð fyrir greiðslunum í skýrslunni. Að mati hópsins er breytt greiðslukerfi mikilvæg forsenda þess að vel takist til við innleiðingu starfsgetumats þar sem skapaðir verði auknir hvatar til atvinnuþátttöku á sama tíma og einstaklingum með skerta starfsgetu er tryggð örugg framfærsla.

Ásmundur Einar segir ljóst að víðtækt samráð þurfi að vera um breytingar á bótakerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. „Innleiðing þeirra er stórt og mikilvægt verkefni sem krefst mikils af stjórnkerfinu, enda snertir málið lífsafkomu margra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert