Heppni að eldurinn kom ekki upp á skólatíma

Talsverðar vatnsskemmdir eru í Seljaskóla eftir brunann.
Talsverðar vatnsskemmdir eru í Seljaskóla eftir brunann. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum heppin að eldurinn hafi ekki komið upp á skólatíma. Brunaeftirlitið hefur gert athugasemdir við að flóttaleið sé notuð sem kennslurými í skólanum,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir formaður Foreldrafélags Seljaskóla.

Kennsla fer fram á göngum í skólanum sem er flóttaleið, að sögn Ragnheiðar. Hún tekur fram að þrátt fyrir að þessi svæði séu notuð til kennslu er ávallt önnur flóttaleið til staðar en þetta er ekki ásættanlegt ástand. „Ég veit að skólastjórnendur vilja ekki kenna í þessu rými en eru neyddir til þess. Reynt er að takmarka það eftir fremsta megni. Skólinn er sprunginn og einhvers staðar verður að kenna börnunum,“ segir Ragnheiður. 

Foreldrafélagið stóð sjálft að öryggisúttekt á skólanum nýverið og skilaði skýrslu inn á borð skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar 31. janúar síðastliðinn. Skoðuðu þau skólann sjálf og tóku myndir og sendu borginni þar sem fjölmargar athugasemdir voru gerðar við bygginguna og búnað. Gerðar voru meðal annars athugasemdir við rakaskemmdir í húsinu, léleg húsgögn, og þröngt rými í smíðastofunni svo fátt eitt sé nefnt.

Flóttaleiðir ógreiðfærar

Í skýrslunni er meðal annars afrit af niðurstöðu eldvarnarskoðunar slökkviliðsins 19. mars 2018. Í henni eru gerðar athugasemdir við að flóttaleiðir séu ógreiðfærar og eða flóknar. Samkvæmt skýrslunni komu fram „ágallar á brunavörnum mannvirkisins. Ágallarnir teljast umtalsverðir“ eins og segir í niðurstöðunum. 

Eigendur og umráðmenn hússins fengu frest til að gera lagfæringar. Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla segir að húsnæðið hafi verið lagað eftir athugasemdirnar eins og nýrri skýrsla eldvarnarskoðunar slökkviliðsins frá því í apríl sýni. „Við löguðum til eftir þetta. En flóttaleiðir hússins eru ekki réttar því við þurftum að loka þeim eftir fyrri bruna,“ segir Magnús. Eldur kom upp í þaki á einni byggingu skólans 8. mars síðastliðinn. Unnið hefur verið að viðgerðum. Þeim var ekki lokið þegar eldur kom upp í skólanum á nýjan leik í nótt, en þá var hann á öðrum stað. Kom eldurinn núna upp í húsi fjögur, en hafði áður verið í húsi sjö í skólanum, sem byggður er upp sem sjö samtengd hús.

Kenna á gangi skólans

„Við erum að kenna á einum gangi skólans en ekki á flóttaleiðinni en þetta þrengir flóttaleiðina,“ segir Magnús. Allar athugasemdir í síðasta eldvarnareftirliti Slökkviliðsins snúast um breytingar sem þurfti að gera vegna fyrri eldsvoðans, að sögn Magnúsar.  

Skólahúsnæðið er sprungið og það er ástæðan fyrir því að kennt er á gangi skólans. „Skólinn er fjölmennari en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Magnús.    

„Nei, ég vil ekki meina það,“ segir Magnús spurður hvort öryggiseftirlit með skólanum sé ábótavant. Hann tekur þó fram að vissulega hafi allt viðhald á húsinu dregist líkt og í allri Reykjavíkurborg eftir hrun. Hins vegar geri heilbrigðiseftirlitið og brunavarnareftirlið reglulega skoðanir og komi með athugasemdir sem brugðist er við, segir Magnús.    

„Við vitum ekki neitt núna. En það er algjörlega ljóst að við þurfum að vera fullviss um að hlutir verði í lagi. Ég hef fengið fullvissu um að það verði gert,“ segir Magnús spurður hvort ekki þurfi að skoða allt rafmagn í húsinu. Í síðasta eldsvoða í skólanum kviknaði í út frá rafmagni.  

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, á vettvangi brunans í nótt.
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, á vettvangi brunans í nótt. mbl.is/Þorsteinn

Allof lítið í viðhald skólabyggingarnar

Ragnheiður tekur í sama streng og Magnús varðandi viðhald á skólanum. Félagði óskaði eftir að fá að sjá hversu há upphæð hafi farið í viðhald á húsinu og voru það um 2 milljónir á ári. „Það er engan veginn nóg. Það er fáránlega lág tala miðað við 650 barna skóla,“ segir Ragnheiður. 

Ragnheiður segist vera orðin langeyg eftir svörum frá borginni um erindi félagsins. Eitt svar hafi fengist frá formanni sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur í febrúar. Annars hafi þau engin svör fengið.  

Hún gagnrýnir Reykjavíkurborg fyrir að veita alltof litlu fé til viðhalds á skólanum. Það sé takmarkað hvað skólastjórnendur geti gert því það fari eftir úthlutun frá borginni. 

Ekki verður kennt í Seljaskóla á morgun vegna brunans og þá munu 250 börn þurfa að sækja nám annað en í húsnæði Seljaskóla vegna brunans. Skemmdust 10 skólastofur í brunanum og er nú leitað leiða til að finna stað undir kennsluna út skólaárið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert