Hundarnir sem einfalda lífið

„Í fullri hreinskilni þá hafði ég ekki mikla trú á að þessi hundur myndi skipta miklu máli fyrir mig svona umferlislega,“ segir Þorkell Steindal sem fékk leiðsöguhundinn Gaur í nóvember. Nú sjái hann þó að það var mikill misskilningur. Með Gaur sér við hlið sé mun auðveldara að komast á milli staða.

„Ég er miklu fljótari yfir og hann einfaldar líf mitt alveg rosalega þegar við erum á ferðinni,“ segir Þorkell. Í myndskeiðinu er rætt við Þorkel sem hefur í tíu ár verið með blindrastaf til að komast ferða sinna og var því mjög vanur því þegar hann fékk Gaur í sína þjónustu en hann er þriggja ára gamall labrador sem kom til landsins frá Svíþjóð.

Í myndskeiðinu er einnig rætt við Lilju Sveinsdóttur sem hefur verið með leiðsöguhund frá árinu 2008, fyrst um sinn var það tíkin Asita sem aðstoðaði hana en þegar hún varð of gömul til að sinna starfi sínu fékk Lilja rakkann Oliver. Bæði Þorkell og Lilja eru með Retinitis Pigmentosa, hrörnunarsjúkdóm í sjónhimnu, og sjá afar lítið. 

Í dag eru átta leiðsöguhundar við störf á landinu. Hundaþjálfarinn Björk Arnardóttir, sem sér um samþjálfun leiðsöguhunda og nýrra eigenda þeirra fyrir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð Blindrafélagsins, segir að tíu manns séu á biðlista eftir blindrahundum hér á landi. Flestir hundarnir sem eru notaðir hér á landi eru þjálfaðir á Norðurlöndunum til tveggja ára aldurs og koma síðan hingað í þjálfun með nýjum eigendum.

Ferlið er kostnaðarsamt en í ljósi þess hversu mikið ferfætlingarnir bæta lífsgæði eigenda sinna er markmiðið að geta tekið inn tvo nýja hunda á ári og fjölga þeim þannig.       

Lögum samkvæmt fá hundarnir að fara með eigendum sínum á alla þá staði sem þeir þurfa að fara á og sækja sér þjónustu. Þau Þorkell og Lilja segja að undantekningarlaust sé skilningur hjá fólki og rekstraraðilum á því. Helsta vandamálið sé þegar aðrir hundar, sem gangi lausir eða eru í löngum taumi, trufli leiðsöguhundana við störf sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert