„Börnin okkar þurfa ekki að ilma“

Frá foreldrafundi um Svansmerkið.
Frá foreldrafundi um Svansmerkið. Ljósmynd/Aðsend

„Öll efni sem við notum fara út í umhverfið og koma til okkar aftur svo það er mjög mikilvægt að nota minna. Við þurfum ekki að nota eins mikið af efnum og við erum að gera, og svo er mikilvægt að velja þau efni sem við þurfum vel,“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, sérfræðingur á sjálfbærnisviði Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun og Svanurinn standa að ráðstefnu um efni í umhverfi barna fyrstu þúsund dagana á Grand hóteli í fyrramálið, en ráðstefnan er haldin í tilefni af 30 ára afmæli norrænu umhverfisvottunar Svansins og formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni 2019.

Guðrún Lilja Kristinsdóttir.
Guðrún Lilja Kristinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í erindi sínu mun Guðrún Lilja fjalla um Svansvottunina og mikilvægi hennar. „Svanurinn gengur lengra en reglugerðir gera kröfur um og hjálpar okkur að velja betur án þess að við séum sérfræðingar sjálf. Svansvottun er fyrsta flokks merking því hún tekur tillit til alls lífsferils vörunnar,“ útskýrir Guðrún Lilja í samtali við mbl.is.

Þannig taki Svanurinn mið af því hvaða efni eru í vörunni, hvaða efni eru notuð við framleiðslu hennar, hvernig varan fer með húðina og loks hvaða áhrif hún hefur á umhverfið. 

Aðspurð hvaða efni það séu helst sem fólk noti mikið án þess að átta sig á skaðsemi þeirra nefnir Guðrún Lilja ilmefni sem dæmi. „Þau eru í raun tilgangslaus og svo eru þau ofnæmisvaldandi. Það er ótrúlega merkilegt hvað allt þarf að ilma.“

Guðrún Lilja segir vörur ekki fá Svansvottun nema þau séu laus við öll ofnæmisvaldandi, krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi efni, sem og efni sem talið er að mögulega geti verið hormónaraskandi, krabbameins- eða ofnæmisvaldandi.

„Við þurfum þetta ekki. Þvotturinn okkar þarf ekki að ilma, við þurfum ekki að ilma, sjampóið okkar þarf ekki að ilma og sérstaklega ekki börnin okkar. Bara alls ekki, það er mjög góð lykt af börnum,“ segir Guðrún Lilja og bætir því við að sjálf kaupi hún Svansvottaðar vörur sem ætlaðar eru börnum.

„Hjá Svaninum eru öll ilmefni bönnuð í barnavörum, alveg sama hvað þau heita, en fyrir fullorðna þá eru einhver ilmefni leyfð sem ekki er búið að sýna fram á að geti verið skaðleg. En ég sleppi þeim bara líka, því þetta þarf ekki.“

Að lokum bendir Guðrún Lilja á mikilvægi þess að vera gagnrýninn á eigin neyslu og spyrja sig spurninga um nauðsyn hverrar vöru fyrir sig, hvort sem um umhverfisvottaða vöru sé að ræða eða ekki. 

Ráðstefnan hefst á Grand hóteli kl. 8:30 í fyrramálið og fer skráning fram á vefsíðu Svansins.

Svansmerkið.
Svansmerkið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert