Hefði sjálf viljað ganga lengra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag bera mikla virðingu fyrir því að þungunarrofsmálið risti djúpt og varðaði grundvallarsannfæringu margra, ef ekki allra, þingmanna og ennfremur að það skipti fólki í tvær fylkingar. Hins vegar hefði verið vel staðið að málinu og fyrir henni sjálfri væri um að ræða risastórt grundvallarmál.

„Þetta er grundvallarmál sem snýst um sjálfræði kvenna að mínu viti, réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama og eigin lífi, langþráð réttindamál, en um leið fylgir því frelsi sem boðað er í frumvarpinu mikil ábyrgð. Ég hef þá afstöðu að ég treysti fólki og konum til að taka ekki slíkar ákvarðanir af neinni léttúð. Ég treysti konum fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir þessum réttindum,“ sagði Katrín. Sjálf hefði hún viljað ganga lengra og treysta konum til fulls með því að hafa engin tímamörk á þungunarrofi.

„Einhverjir hefðu viljað ganga lengra og hafa engin tímamörk á og treysta konum til fulls. Það er mín persónulega afstaða,“ sagði forsætisráðherra sem brást þar við fyrirspurn um málið frá Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins, sem hvatti ráðherrann til þess að beita sér fyrir því að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof yrði ekki afgreitt á Alþingi eins og til stendur síðar í dag.

Vísaði meintum hrossakaupum á bug

Sagði Birgir Miðflokkinn hafa lagt viðbótarspurningar fyrir velferðarnefnd Alþingis og óskað eftir því að fá fleiri sérfræðinga á fund hennar en því hafi verið hafnað. Formaður nefndarinnar, Halldórs Mogensen, hefði hafnað stjórnarþingmanni um að reyna að ná sátt um þann fjölda vikna sem miðað yrði við og sagt málið útrætt. Siðfræðistofnun og Þroskahjálp hefðu lagt til að málinu yrði frestað en ekki hefði verið hlustað á það.

„Málið hefur læknisfræðilegar, trúarlegar og siðferðislegar hliðar. Engum á vegum trúfélaga var boðið að koma fyrir nefndina. Formaður nefndarinnar hefur sagt að trúarleg sjónarmið eigi ekki að hafa áhrif og þá væntanlega ekki heldur siðferðisleg álitaefni sem allir vita jú að eru ærin í þessu máli,“ sagði Birgir ennfremur og velti því upp hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði keypt stuðning við þriðja orkupakka Evrópusambandsins með því að heita stuðningi við þungunarfrumvarpið. Því vísaði Katrín hins vegará bug.

„En ég mun styðja þetta frumvarp hér á eftir og ég læt ekki segja mér að um þetta mál eða mál af slíku tagi, sem er jafnalvarlegt og raun ber vitni, að mér, eða samstarfsfólki mínu í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, mundi detta í hug að fara í einhver hrossakaup um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina