Kristján ekki á fermingaraldri

Frá Alþingi í dag þegar atkæðagreiðslunni var nýlokið.
Frá Alþingi í dag þegar atkæðagreiðslunni var nýlokið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhætt er að segja að mikill hiti hafi verið í þingmönnum á Alþingi í kvöld við afgreiðslu frumvarps ríkisstjórnarinnar um þungunarrof. Höfðu nokkrir þingmenn vakið athygli á því að fleiri karlkyns þingmenn gerðu athugasemdir við umrætt frumvarp.

„Það að hlusta hér á miðaldra karlmenn sem ætla að skammta konum úr hnefa réttindi er óþolandi,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, þegar hún skýrði atkvæði sitt.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagði óþolandi að hlusta á …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagði óþolandi að hlusta á miðaldra karla sem ætla að skammta konum réttindi. mbl.is/Eggert

Var þá kallað úr sal: „Hvaða fordómar eru þetta?“ Varð þá mikill hlátur í sal og á þingpöllum. Bjarkey svaraði: „Líklega sambærilegir og karlar bera gagnvart konum og þeirra ákvörðunarrétti, að treysta ekki konum til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir.“

„Slík ákvörðun [um þungunarrof] er aldrei tekin af neinni léttúð. Hér hefur verið látið liggja að því að þungunarrof verði hér á færibandi,“ sagði Bjarkey og lauk hún máli sínu á því að þakka Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, fyrir að hafa sett málið af stað á sínum tíma, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir að leggja málið fram og Halldóru Mogensen, formanni velferðarnefndar, fyrir hennar starf.

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Eggert

„Ömurleg formerki umræðunnar“

Tók Kristján Þór til máls til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu nokkru seinna og sagði: „Þetta er umdeilt mál eins og margoft hefur komið fram. Mér finnst hins vegar alveg ömurlegt að hlýða á umræðuna undir þeim formerkjum að það sé verið að skipa fólki til skoðana eftir aldri, kyni eða stjórnmálaflokkum. Þetta er einfaldlega mál sem sker þvert á alla flokka.“

„Hér hefur verið alhæft að miðaldra karlmenn séu á móti þessu máli, seint verð ég nú sakaður um að vera drengur á fermingaraldri, en ég er stuðningsmaður þessa máls og ég er sjálfstæðismaður að auki. Þannig að alhæfingar sem hér koma fram gera ekkert annað en að sýna mér fram á það þeir sem þannig tala eru ekki hæfastir manna til að taka ákvarðanir í svona máli,“ sagði ráðherrann.

„Virðum skoðanir þeirra sem eru andstæðir okkur. Við þurfum ekki að vera sammála þeim, en tölum ekki niður til þeirra,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert