Málið frá tíð Sjálfstæðisflokksins

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsögu frumvarps heilbrigðisráðherra um þungunarrof, sem til stendur að afgreiða síðar í dag á Alþingi, má rekja til þess tíma þegar heilbrigðismálin voru í höndum heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um frumvarpið. Ráðherrann sagði einnig að ekki væri endilega nauðsynlegt að stuðningur við þingmál á Alþingi, líkt og umrætt stjórnarfrumvarp, færi eftir stuðningi við ríkisstjórnina.

„Þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið lá þar fyrir skýrsla sem var beðið um af hæstvirtum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, þar sem frumvarp af þessu tagi var lagt til með mjög eindregnum og faglegum hætti. Þessi skýrsla lá á borðinu þegar ég kom að í ráðuneytinu og mér þótti einboðið að færa niðurstöðu nefndarinnar til Alþingis vegna þess að það er Alþingi sem á að taka ákvörðun um þessa hluti en ekki ráðherrann einn og sjálfur,“ sagði ráðherrann.

Svandís sagði ennfremur að henni þætti Alþingi hafa sýnt í umræðu um þungunarrofsfrumvarpið hvers það væri megnugt enda hefði málið verið tekið til ítarlegrar umræðu á vettvangi þess. „Þar hafa málin skipast þannig að niðurstaða eða afstaða til málsins er ekki endilega í samræmi við stuðning við ríkisstjórn eða andstöðu við hana heldur afstöðu til málsins sem slíks. Það er kannski nákvæmlega þannig sem þingið á að virka, að við tökum öll afstöðu fyrst og fremst út frá málinu sem slíku.“

Ráðherrann brást við fyrirspurn frá Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, sem kvartaði yfir því að ekki hefði farið nægjanlega mikið umræða fram um málið. „Þingið hefur talað, en hvenær fengum við í rauninni alvöruumræðu? Hvenær höfum við fengið alvöruumræðu um málið hér? Vissu íslenskir kjósendur það þegar þeir gengu í kjörklefann 2017 að þetta frumvarp væri fyrirliggjandi? Ég held ekki.“

mbl.is