Tæknileg atriði eða íkveikja

Ef orsökin að brunanum í Seljaskóla um helgina liggur í …
Ef orsökin að brunanum í Seljaskóla um helgina liggur í tæknilegum atriðum, eins og gilti um þann síðasta, sem var í mars, þarf að fara ofan í kjölinn á því máli, segir slökkviliðsstjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að hafin sé vinna á vettvangi sem miðar að því að skera sem fyrst úr því, hvað kann að hafa átt sér stað sem leiddi til eldsvoða aðfaranótt sunnudags í Seljaskóla.

Ef orsökin að brunanum í Seljaskóla um helgina liggur í tæknilegum atriðum, eins og gilti um þann síðasta, sem var í mars, þarf að fara ofan í kjölinn á því máli, segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðu frumrannsóknar á málinu er enn beðið en ef gera þarf umbætur nýtist sumarið vel í það. Nokkurn tíma gæti tekið að rannsaka málið enda mikill bruni en eðlilega tekur svona lagað nokkra daga.

„Þetta er náttúrulega alltaf umhugsunarefni bæði eiganda mannvirkis og slökkviliðs,“ segir Jón Viðar um þá atburðarás að tvisvar hafi brunnið í skólanum með tveggja mánaða millibili. Hann segir að samstarf hafi verið í gangi um málefni Seljaskóla.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins

Hvort mönnum sé stætt á að reka skólahald í húsnæði þar sem tvisvar brennur á einu ári segir Jón ekki unnt að fullyrða fyrr en niðurstaða rannsóknar liggi fyrir. „Tvennt kemur til greina, íkveikja eða tæknileg atriði. Ef það er tæknilegt atriði þarf að bora ofan í það mál og kanna hvað veldur,“ segir hann. Þriðji möguleikinn er sá að engin orsök sé sjáanleg og það er þá öllu verra.

Jón segir að komið hafi í ljós í þessum bruna og þeim síðasta að brunaviðvörunarkerfið er í lagi, það hafi farið í gang eins og til var ætlast. Hins vegar þurfi að kanna önnur mál betur ef um var að ræða svipaða orsök og síðast.

Starfsemi Seljaskóla fer fram í mörgum samtengdum húsum, sem hvert um sig eru sérbrunahólf. Jón Viðar segir að sú tilhögun mála sé meðal ástæðna þess að ekki hafi farið verr í brunanum. Einnig segir hann að steypta platan undir þakinu, sem hélt á meðan á brunanum stóð, sé hólfun útaf fyrir sig. Slíkt hjálpi til við að marka eldinn af og einangra hann. „Ef það hefði ekki verið hefði byggingin hreinlega brunnið til grunna,“ segir hann.

Aðstæður til slökkvistarfs segir Jón Viðar að hafi verið góðar. Álag á sjúkraflutningum og slíku hafi verið með minna móti enda sunnudagur. Þá var veðrið gott og ekki hvasst, sem hefði gert illt verra.

Foreldrafélagið í skólanum hefur lýst yfir áhyggjum af stöðu brunavarna í skólanum og eldhættu. Jón Viðar segist skilja vel að fólki sé brugðið en hann fullyrðir að vel sé staðið að málum og að verið sé að vinna úr þessum málum í skólanum. „Allir eru að vinna af fullum þunga að úrbótum á þessu,“ segir hann.

Vatn flæddi um gólf í byggingunni þar sem bruninn varð.
Vatn flæddi um gólf í byggingunni þar sem bruninn varð. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert