„Þetta verður heilmikið púsl“

Álmuna þar sem bruninn varð er ekki heimilt að mynda. …
Álmuna þar sem bruninn varð er ekki heimilt að mynda. Verið er að meta tjónið þar fyrir tryggingar en ljóst er að skemmdirnar eru miklar. mbl.is/Ómar

„Það er ljóst að ekkert skólastarf fer fram á komandi mánuðum í þessari byggingu sem brann. Menn þurfa að teikna upp hvernig þeir ljúka skólaárinu hjá þessum nemendum,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg. Næstu skref segir hann vera að teikna þau áform upp.

Tilefnið er bruninn sem varð í Seljaskóla um helgina. Ástandið á eignunum sem urðu fyrir tjóni segir Helgi að sé slæmt, en enn sé verið að meta umfang tjónsins. Hann segir að þetta sé sálrænt erfitt fyrir starfsfólk, nemendur og foreldra og því sé mikilvægt að fólk þétti raðirnar og standi saman í þessu máli.

„Allt sem er þarna inni, gögn og búnaður, er skemmt. Þetta eru vatns-, reyk- og sótskemmdir, brunaskemmdir í þaki og rakaskemmdir í lagnaliðum,“ segir Helgi. Því geti „þyrmt yfir“ starfsfólki þegar það mætir á vettvang að vitja eiga sinna. Börnin fái þó ekki að sjá hvernig komið er fyrir þessum hluta skólans fyrr en að loknum viðgerðum. Eins og sagt var frá í gær var ekki kostur á því fyrir ljósmyndara mbl.is að mynda vettvanginn vegna tryggingamála.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Tryggingamálum er annars svo háttað hjá Reykjavíkurborg að skólabyggingin sjálf er tryggð en eigur og slíkt er einfaldlega á ábyrgð sjálfrar borgarinnar. Helgi segir umfangsmikinn rekstur eins og Reykjavíkurborg þannig vera ákveðna tryggingu í sjálfum sér. Persónulegir munir kennara sem þeir geymdu í stofunum eru sumir ónýtir og verða því miður ekki bættir, segir Helgi.

Verið er að kanna hver næstu skref eru fyrir þau 250 börn sem eru kennslustofulaus. „Þetta verður heilmikið púsl og þess vegna skiptir máli að menn séu í lausnargírnum,“ segir Helgi. „Það skiptir máli að menn standi með skólanum sínum og geri eins gott úr flóknu aðstæðum og hægt er,“ segir hann. Skiljanlegt sé að fólk spyrji sig hvort hlutirnir séu ekki í lagi eftir tvo bruna á einu ári og í því umhverfi verði ekki síður mikilvægt að þjappa hópnum saman.

Hann segir þetta spurningu um að klára skólaárið með sóma. Verk sé fyrir höndum að púsla saman kennslu en húsnæði standi til boða í hverfinu og þá gefi vorið kost á kennslu utandyra.

Þakplöturnar voru teknar af þaki Seljaskóla í slökkvistarfinu enda voru …
Þakplöturnar voru teknar af þaki Seljaskóla í slökkvistarfinu enda voru þær alelda en sjálf þakplatan hélt, sem réði úrslitum um afdrif byggingarinnar. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert