Vill kanna viðhorf til hvalveiða

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átta þingmenn úr röðum Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli utanríkisráðherra að láta kanna viðhorf almennings í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum til áframhaldandi hvalveiða Íslendinga.

Þingmennirnir vilja að spurt verði um það hvaða áhrif hvalveiðar Íslendinga hafi á sölu á íslenskum vörum á mörkuðum í þessum löndum, ferðamenn sem koma til Íslands eða hafa hug á því og vörumerkið Ísland.  Fyrsti flutningsmaður er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

„Ímynd Íslands á alþjóðavísu og hugmyndir ferðamanna sem hingað koma um landið eru samofnar þeim breytingum og hraða á upplýsingamiðlun sem átt hefur sér stað undanfarinn áratug með tilkomu samfélagsmiðla. Það er því mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að gerð sé ítarleg athugun á viðhorfi þeirra þjóða sem helst koma hingað til hvalveiða og hvort þau viðhorf komi til með að hafa áhrif á vilja fólks til að ferðast til landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert