„Aldrei séð eins mikla valdníðslu“

Ólafur sneri aftur til starfa í Grensáskirkju í dag. Lögmaður …
Ólafur sneri aftur til starfa í Grensáskirkju í dag. Lögmaður hans segist aldrei hafa séð álíka valdníðslu. mbl.is/

„Ég hef komið að mörgum málum sem snerta stjórnsýslu og ég hef aldrei séð eins mikla valdníðslu í nokkru máli sem ég hef komið að á þrjátíu ára lögmannsferli,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ólafs Jóhannssonar sóknarprests, sem sakaður var um brot í starfi, í samtali við mbl.is.

„Hann er bara sóknarprestur í Grensáskirkju hann Ólafur Jóhannsson eins og hann hefur verið í tvo áratugi. Biskup veit það að hann getur ekki bannað honum að vinna vinnuna sína og þá biður hann Ólaf um að gera það ekki. Þeir geta aldrei stoppað,“ segir Einar Gautur.

Nefnd fjármálaráðuneytisins um tímabundnar lausnir ríkisstarfsmanna frá störfum hefur komist að þeirri niðurstöðu að tímabundin brottvísun Ólafs úr starfi hafi ekki verið réttmæt og ákvað Biskupsstofa að greiða Ólafi vangoldin laun sökum þess.

Engin brot framin

Einar Gautur segir þjóðkirkjuna og biskup ítrekað hafa reynt að koma Ólafi frá starfi án þess að gefa fyrir því réttmæt rök.

„Af einhverjum ástæðum hefur þjóðkirkjan verið að halda Ólafi frá því að sinna embætti sínu sem sóknarprestur í Grensáskirkju og uppgefnar ástæður eru ekki réttar. Það er alveg sama þó að úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hafi komist að því að ekkert kynferðisbrot hafi verið framið og ekkert lögbrot, engin kynferðisleg áreitni. Þá ákváðu þeir að banna honum að mæta til starfa,“ útskýrir hann.

„Áfrýjunarnefnd kemst að sömu niðurstöðu,“ segir lögmaðurinn og þá hafi biskup gripið til þess ráðs að vísa Ólafi úr starfi um stundarsakir vegna brots í starfi. Hafi tímabundin lausn hans þá farið fyrir nefnd fjármálaráðuneytisins.

Einar Gautur Steingrímsson.
Einar Gautur Steingrímsson. mbl.is/Jón Pétur

Miklir gallar á málstað biskups

Einar Gautur segir verulega vankanta hafa verið á málatilbúnaði Biskupsstofu í málinu þar sem biskup hafi ekki lýst neinu broti fyrir nefndinni, ekki neinu lagaákvæði máli sínu til stuðnings og ekki hafi legið fyrir neinn grunur um refsiverða háttsemi.

„Þá gerist það að biskup getur ekki sætt sig við annað en að Ólafur sé kominn í embætti á ný og hann réttilega bregst þannig við að hann borgar honum launin. En af því að hann getur ekki lengur misbeitt valdi sínu eins og biskup hefur gert til þessa – hann hefur misbeitt valdi sínu – þá biður hann Ólaf um að mæta ekki í vinnu. Fyrir hönd Ólafs sagði ég bara nei og Ólafur mætti til vinnu í morgun. Við verðum ekki við þessari ósk,“ segir hann.

Ólafi til höfuðs

Spurður um sameiningu Bústaðaprestakalls og Grensásprestakalls, sem stendur til að verði að veruleika 1. júní, svarar Einar Gautur: „Það bara hefur sinn gang. Hins vegar er ég sannfærður um það að sameining prestakallanna sé sett honum [Ólafi] til höfuðs.“

Er blaðamaður spyr um skýringu þess að menn myndu ganga svo langt að sameina prestaköll, segir lögmaðurinn: „Ég tel líklega skýringu vera að einhverjum hafi verið lofað að hann kæmi ekki aftur til starfa og verið sé að efna loforð sem ekki var hægt að gera.“

mbl.is