Blæddi út á meðan þeir biðu

Um 1.100 manns búa í Mehman í Norður-Noregi.
Um 1.100 manns búa í Mehman í Norður-Noregi. Wikimedia Commons/Richard Mortel

Sjúkraflutningamenn þurftu að bíða eftir lögreglunni í 40 mínútur fyrir utan heimili Gísla Þórs Þórarinssonar í Mehamn þar sem þeir máttu ekki fara inn í húsið án lögreglu. Gísla blæddi út á meðan, segir í frétt norska ríkisútvarpsins í morgun.

Formaður Sambands sjúkraflutningamanna segir afar slæmt að viðbragðstíminn sé ekki betri  þegar kemur að björgun mannslífa.

Hálfbróðir Gísla Þórs situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skotið hann til bana á heimili Gísla í Mehamn í Finnmörku. Niðurstaða réttarmeinarannsóknar er að Gísla hafi blætt út eftir að hafa verið skotinn í lærið. Gísli var á lífi þegar lögregla kom á vettvang en ekki tókst að bjarga lífi hans.

Reglur um að sjúkraflutningamenn megi ekki fara inn í hús þar sem skotvopnum hefur verið beitt eru til þess að vernda þá í starfi. Í þessu tilviki þurfti lögreglan að koma frá Kjøllefjord sem er í rúmlega hálftíma akstursfjarlægð frá Mehamn. 

Að sögn Ola Yttre, formanns Sambands sjúkraflutningamanna, var lögreglan síðust á vettvang þessa nótt. Hann segir að það sé afar óþægilegt að vita af manneskju með lífshættulega áverka sem þurfi nauðsynlega á aðstoð að halda án þess að hafa heimild til þess að veita aðstoð. Þetta sé alls ekki nógu gott skipulag og því þurfi að breyta.

Þetta hefur orðið til þess að sjúkraflutningamenn eru æ oftar farnir að fara inn á staði sem þeir mega ekki gera án stuðnings lögreglu. Það getur reynst stórhættulegt.

Neyðarlínan fékk neyðarskilaboð frá Mehamn klukkan 05:25, að sögn yfirmanns Neyðarlínunnar í Finnmörku, Tarjei Sirma-Tellefsen, í samtali við NRK. Lögreglan, sem er eins og áður sagði staðsett í Kjøllefjord, þurfti að vopnast áður farið var af stað og sækja lækni sem var á vakt. Lögreglan og læknirinn voru komin á vettvang klukkan 06:18 eða 53 mínútum eftir að tilkynnt var um atvikið. Þá höfðu sjúkraflutningamennirnir beðið fyrir utan húsið í 40 mínútur. 

Formaður Sambands lögreglumanna, Sigve Bolstad, segir að vandamálið sé hversu fáir lögreglumenn séu á vakt á smærri stöðum. Breyttar áherslur í rekstri lögreglunnar bitni verst á smærri stöðum á landsbyggðinni.

Frétt NRK í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert