Ekki til válisti fyrir fiska og skordýr

Útselur er ein þeirra dýrategunda á Íslandi sem teljast í …
Útselur er ein þeirra dýrategunda á Íslandi sem teljast í bráðri hættu.

Átta tegundir æðplantna eru í bráðri hættu hér á landi, til að mynda skeggburkni, gljástör og mýramaðra. Þrjár fuglategundir teljast einnig í bráðri hættu — lundi, fjöruspói og skúmur og það sama gildir um bæði landsel og útsel.

Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafadeildar, Náttúrufræðistofnun Íslands, segir skýrslu sem kynnt var á vegum Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku, sem sýnir að vist­kerf­um jarðar hrak­ar á hraða sem ekki hef­ur áður sést í mann­kyns­sög­unni, ekki koma fræðimönnum Náttúrufræðistofnunnar á óvart.

Í skýrsl­unni, sem bygg­ir á um 15.000 heim­ild­um, kem­ur meðal ann­ars fram að yfir ein millj­ón teg­unda, af þeim átta millj­ón­um sem þekkt­ar eru á jörðinni, séu í út­rým­ing­ar­hættu og að þar af megi bú­ast við því að fjöl­marg­ar teg­und­ir deyi út inn­an fárra ára­tuga.

Skeggburkni er einn þeirra æplöntutegunda sem eru á válista Náttúrufræðistofnunnar.
Skeggburkni er einn þeirra æplöntutegunda sem eru á válista Náttúrufræðistofnunnar. Ljósmynd/Lára Guðmundsdóttir

Eiga sér enga undankomu með röskun vistkerfa

„Það hefur verið vitað í áratugi að margar tegundir eiga undir högg að sækja. Þetta á sérstaklega við um tegundir sem lifa á svæðum þar sem sífellt er gengið á búsvæði þeirra og eru þar af leiðandi í samkeppni við manninn um svæði,“ segir Trausti og kveður þetta eiga við um svæði sem eru tekin undir landbúnað, íbúðabyggð, vegi og fleira.

„Einnig eru þetta tegundir sem eru mjög sérhæfðar og lifa kannski á mjög fáum stöðum, eru jafnvel einlendar, þannig að ef það verður röskun á vistkerfi þeirra þá eiga þær sér enga undankomuleið.“ Þetta sé til að mynda þekkt með fuglategundir á eyjum Nýja Sjálands og það sama hafi átt við um geirfuglinn hér á landi, áður hann hann varð útdauður um miðja 19. öldina vegna ofveiði.

Býflugur eru nauðsynlegar fyrir frjóvgun plantna og eru því lífríkinu …
Býflugur eru nauðsynlegar fyrir frjóvgun plantna og eru því lífríkinu öllu og þar með talið manninum nauðsynlegar. AFP

Aðrar tegundir hafa hins vegar liðið fyrir mengun eða notkun varnarefna í landbúnaði, líkt og fjölmörg dæmi eru um í tilfelli ýmissa skordýra, m.a. býflugna sem eru nauðsynlegar fyrir frjóvgun plantna og eru því lífríkinu öllu og þar með talið manninum nauðsynlegar.

„Þegar kemur á loftslagbreytingum er það ljóst að hlýnun mun valda miklum breytingum, ekki síst á norðurhveli jarðar. Þar eru margar tegundir sem hafa aðlagað sig að kulda,“ segir hann. Margar tegundir séu hins vegar líka staðbundnar, til að mynda ýmsar plöntutegundir og þær geti því ekki fært sig þegar t.d. skógarmörk færast norðar og aðrar tegundir njóta góðs af hlýnuninni.  

Keldusvín telst útdautt í íslenskri náttúru og eru framræsing votlendis …
Keldusvín telst útdautt í íslenskri náttúru og eru framræsing votlendis og minkurinn taldir líklegir sökudólgar. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Haftyrðill og keldusvín útdauð í íslenskri náttúru

Náttúrufræðistofnun hefur gefið út válista fyrir plöntur, fugla og spendýr. Enn vantar hins vegar válista fyrir bæði fiska, smádýr og sveppi svo dæmi séu nefnd, en verið er að vinna í því að hefja þá vinnu.

Trausti segir að þegar tegundir séu settar á válista séu mismunandi hættuflokkar notaðir. Þannig geti til að mynda fágætar tegundir lent í ákveðnum hættuflokkum, þó þær séu ekki endilega í útrýmingarhættu eða einhver sérstök hætta steðji að þeim á þeim tíma sem flokkunin er gerð.

„Hér á landi eru t.d. átta tegundir æðplantna í bráðri hættu, t.d. skeggburkni, gljástör og mýramaðra, þrjár tegundir fugla — lundi  fjöruspói og skúmur. Eins eru bæði landselur og útselur hér við land í hættu, landselur í bráðri hættu og útselur í nokkurri hættu,“ útskýrir hann. Flokkunin gefi oft til kynna mikla fækkun á stuttum tíma, en feli þó ekki endilega í sér að tegundin sé í beinni útrýmingarhættu. „Til dæmis hefur varp gengið verulega illa hjá lundanum á meginvarpstöðvunum sunnanlands og vestan og honum hefur fækkað mikið, þótt stofninn sé enn stór.“ 

Válisti Náttúrufræðistofnunnar á eingöngu við um Ísland og þá stofna sem hér lifa og sem geta bæði verið sterkari eða veikari hér en annarsstaðar. „Þekktustu dæmin um tegund hér á landi sem hefur verið útrýmt alfarið er geirfuglinn,“ segir hann og bætir við að það hafi verið vegna ofveiði. „Svo eru tegundir eins og haftyrðill og keldusvín sem er sagðar útdauðar í íslenskri náttúru.“ Loftslagsbreytingar verði að teljast líklegasta ástæða þess að haftyrðillinn sé útdauður hér, en hann er hánorræn tegund sem líklega hefur verið á mörkum útbreiðslusvæðis síns. Framræsing votlendis og minkurinn eru hins vegar líklegir sökudólgar í tilfelli keldusvínsins.

„Síðan er það er alþekkt út um allan heim að framandi, ágengar tegundir geta valdið stórskaða á lífríkinu og á það bæði við um dýr og plöntutegundir,“ segir Trausti og nefnir bæði lúpínuna og trjátegundir í þessu sambandi.

Náttúrufræðistofnun er nú að rannsaka hvort að örplast finnist í …
Náttúrufræðistofnun er nú að rannsaka hvort að örplast finnist í íslenskum refum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Kanna plastmengun í ref 

Plastmengun, minnkun votlendis, loftslagsbreytingar og dauð svæði í hafi af völdum áburðar sem ratað hef­ur í vist­kerf­in við strand­ir ríkja eru meðal þeirra áhrifavalda á vistkerfið sem nefnd eru í áður nefndri skýrslu.

Trausti segir suma þessara þátta vissulega hafa haft áhrif hér, líkt og í dæmi áðurnefnds keldusvíns. Auk þess hafi framræsla votlendis haft áhrif á að líffræðileg fjölbreytni sé á mörgum svæðum minni en áður. Færri plöntutegundir eru þar sem er  túnrækt og eins hafist færri fuglategundir við á svæðum þar sem votlendi hefur verið látið víkja fyrir túnum og búsvæði ýmissa votlendisfugla þannig verið eyðilög.

„Því miður er enn stunduð framræsla vegna landbúnaðar hér á landi og farið á svig við náttúruverndarlög sem kveða á um að ekki megi skerða tilteknar vistgerðir.“

Trausti segir þá byrjað að kanna plastmengun í dýrum hér á landi og fannst plast í yfir 70% fýla og í 40-55% af kræk­lingi sam­kvæmt rann­sókn­um sem Um­hverf­is­stofn­un lét gera á síðasta ári.  Þá er Náttúrufræðistofnun um þessar mundir að kanna plast í refum. „Í þessum tilfellum eru lausnirnar í raun einfaldar en geta hins vegar verið flóknar samfélagslega,“ segir hann og vísar til þess að við ættum að hætta að nota plast, banna framræslu og annað þess háttar.

Þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á lundastofninn.
Þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á lundastofninn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skortur á langtímarannsóknum

Ofauðgun í hafi vegna áburðarefna er hins vegar óþekkt hér á landi, enda engin grunn innhöf hér líkt og til að mynda Kattegat og önnur grunnsævi við Danmörku, þar sem ofauðgun hefur átt sér stað og súrefnisþurrð orðið það mikil að dýralíf drepst á stórum svæðum.

Hvað loftslagsbreytingar varðar segir Trausti hins vegar teikn um ýmislegt sem hlýnun hefur áhrif á vera vel sýnileg.  „Hér má auðvitað nefna súrnun hafsins og áhrif þess ef illa fer til dæmis á skeldýr og þar með ýmislegt annað í fæðukeðjunni. Einnig hefur sandsílastofninn verið í lágmarki sunnanlands, loðnan hefur færst til og þá hefur makríllinn færst norðar eins og allkunnugt er,“ nefnir hann.

Þá sé spurningin hvað þetta hafi haft mikil áhrif á lundastofninn. „Það er hins vegar verulegur skortur á langtímarannsóknum og vöktun sem þarf til að fá heildarsýn á áhrif loftslagbreytinga á vistkerfi og samspil þeirra breytinga á einstakar tegundir,“ útskýrir Trausti. 

Spurður hvort hann telji líklegt, miðað við núverandi þróun, að einhverjar tegundir hér á landi verði útdauðar innan nokkurra ára eða áratuga, kveðst Trausti ekki vilja spá fyrir um slíkt. „Landið er tiltölulega náttúrulegt ef miðað er við mörg lönd í Evrópu og margt hefur einnig lagast bæði hér og erlendis, t.d. í Evrópu, fyrir tilstilli betri verndar og betri mengunarvarna,“ segir hann. Íslendingar geti þó hæglega tapað sérstökum stofnum plantna eða smádýra án þess að vita af því. Þetta geti til að mynda gerst á svæðum þar sem lúpína verður einráð, eða þar sem raskað er fágætum jarðhitasvæðum.

Makríll veiðist nú norðar en áður og nefnir Trausti það …
Makríll veiðist nú norðar en áður og nefnir Trausti það sem dæmi um sýnileg áhrif hlýnunnar sjávar. mbl.is/Árni Sæberg

Állinn líklegur til að lenda á válista

Blaðamanni leikur einnig spurn á að vita hvort Náttúrufræðistofnun telji þörf að setja fleiri tegundir á válista og bendir Trausti þá á að slíka lista vanti fyrir t.d. fiska og skordýr, en verið er að vinna í því að hefja vinnu við gerð válista fyrir þessa lífveruhópa. Ljóst er hins vegar að það verður ekki framkvæmt nema í samvinnu milli margra aðila.

„Hvað fiskana varðar þá á þetta við um allar fiskategundir, hvort sem þær eru nýttar eða ekki. Hvað kemur upp úr hattinum þegar þetta verður skoðað betur er hins vega alls endis óvíst.“ Trausti bendir á að bleikjan eigi til dæmis undir högg að sækja vegna hlýnunar og eins muni állinn nær örugglega lenda á válista hér, sem og víðast hvar annars staðar í Evrópu.

„Munu framandi laxategundir sem eru nýttar í laxeldi, t.d. sjókvíaeldi hafa neikvæði áhrif á laxastofna hér við landi?“ spyr hann. Ekki megi nefnilega gleymast að þó aðeins sé ein tegund af laxi við landið, þá hafi ýmsir stofnar tegundarinnar aðlagað sig að ákveðnum ám eða svæðum. Það er verið að taka áhættu sem er þekkt, bætir hann við. 
 

Skúmurinn er ein þeirra þriggja fuglategunda sem eru á válista …
Skúmurinn er ein þeirra þriggja fuglategunda sem eru á válista Náttúrufræðistofnunnar yfir tegundir sem teljast í bráðri hættu hér á landi. mbl.is/Sigurður Ægisson


Trausti segir vissulega ýmislegt hafa áunnist undanfarin ár í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þeirri ógn sem stafi að vistkerfum jarðar og þá fyrst og fremst á þann veg að „það er trúlega meiri skilningur í dag fyrir samspili ólíkra þátta, sem geta haft áhrif á lífríki jarðarinnar, og trúlega meiri skilningur fyrir því að við getum ekki lifað hér öðruvísi en að taka tillit til lífríkisins.“ Einnig sé meiri skilningur fyrir því nú en áður að jörðin stendur einfaldlega ekki undir endalausri fólksfjölgun og vestrænum neysluvenjum.

Vitundarvakningin, þegar kemur að því að bregðast við, virðist hins vegar oft vera mjög stutt. „Það eru til dæmis til góð lög um náttúruvernd í dag og Náttúrufræðistofnun hefur einmitt nýlega lagt til að vernda ákveðin svæði, vistgerðir, búsvæði og tegundir til að reyna að viðhalda lífríki almennt og sérstöðu íslensks lífríkis, sem einnig er undirstaða fyrir t.d. margar tegundir farfugla sem Ísland ber ábyrgð á“ Þó við viljum vernda sérstöðu íslensk lífríkis þýðir það ekki að það muni ekki þróast, en til að það geti gerst verður að vernda fjölbreytni þess því þar liggja möguleikarnir.  

„En það þarf heildarsýn. Það er til dæmis ekki hægt að boða endalausa skógrækt til að binda kolefni vegna loftslagsbreytinga, þegar tegundirnar sem eru notaðar eru framandi og landið sem er tekið undir skógrækt er gróið land og búsvæði ýmissa tegunda bæði plantna, fugla og skordýra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert