Stöður í sameinuðu Fossvogsprestakalli verða auglýstar í júní

Grensásprestakall rennur inn í sameinað Fossvogsprestakall. Preststöðurnar verða auglýstar í …
Grensásprestakall rennur inn í sameinað Fossvogsprestakall. Preststöðurnar verða auglýstar í júní. mbl.is/

Þegar sameining prestakallanna í Fossvogi, Bústaðaprestakalls og Grensásprestakalls, gengur í gegn verða þrjár prestastöður þar. Einn sóknarprestur mun starfa í kirkjunni, séra Pálmi Matthíasson, og tveir prestar.

Ekkert er fast í hendi um það hverjir munu gegna þessum tveimur embættum presta í nýju sameinuðu Fossvogsprestakalli. Í samtali við mbl.is segir biskupsritari, Þorvaldur Víðisson, að auglýst verði eftir umsóknum í störfin í byrjun júní.

Biskup Íslands hefur óskað eftir því við séra Ólaf Jóhannsson, sem var sóknarprestur Grenáskirkju, að hann virði þá ósk biskups að María Ágústsdóttir þjóni Grensásprestakalli út maí. Í júní eiga prestaköllin að renna saman.

Samkvæmt lögmanni Ólafs er hann tekinn við embætti á ný en óljóst hefur verið við hvað er átt með því, þar sem María er settur prestur í Grensáskirkju. Þorvaldur biskupsritari segir að um sameiningu prestakallina muni gilda lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þar sem kveðið er á um biðlaun og annað slíkt.

Ólafur mun upp frá því ekki vera starfandi við Grensásprestakall, enda sú stofnun í rauninni ekki til. Það merkir svo að ef séra Ólafur hefur hug á að starfa við nýtt sameinað prestakall, ber honum að sækja um það starf.

Spurður hvort sameining prestakallanna tengist máli Ólafs segir Þorvaldur að þetta séu tvö aðskilin mál. Sameining prestakallanna fylgi samþykkt á kirkjuþingum um heildarskipan á prestaköllum í landinu. Hitt málið sé annars eðlis og sé í rauninni annað mál.

„Sameiningar hafa gengið í gildi um allt land og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er í samræmi við heildarstefnu biskups,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert