Sóknarprestur fær vangreidd laun greidd

Annar prestur hefur þjónað í Grensásprestakalli í fjarveru Ólafs en …
Annar prestur hefur þjónað í Grensásprestakalli í fjarveru Ólafs en það hefur verið lagt niður og sameinað Fossvogsprestakalli. Arnaldur Halldórsson

Biskupstofa hefur ákveðið að greiða Ólafi Jóhannssyni, sóknarpresti í Grensáskirkju, vangreidd laun eins og aldrei hefði til tímabundins brottrekstrar komið. Að sögn lögmanns Ólafs er hann tekinn við embætti á ný.

Gamla prestakall Ólafs var sameinað öðru í gær, sem þýðir að ekki liggi fyrir hvar nákvæmlega hann tekur við embætti. Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður hans, staðfestir þó í samtali við mbl.is að hann sé tekinn við embætti á ný.

Ólafi var veitt lausn frá starfi tímabundið af Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi 5. desember í fyrra. Sú tímabundna lausn hefur verið metin „ekki rétt“ af nefnd fjármálaráðuneytisins um tímabundnar lausnir ríkisstarfsmanna frá störfum.

Nefnd sú telur að ákvörðun biskupsstofu um að veita séra Ólafi tímabundna lausn frá störfum hafi ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti, þ.e. með vísan í að ásakanir Ólafi á hendur hafi legið fyrir á tíma lausnarinnar sem vörðuðu við hegningarlög.

Vísan til nefnda innan kirkjunnar ekki nægur rökstuðningur

Nefndin segir jafnframt að „engin sjálfstæð rannsókn virðist hafa farið fram af hálfu biskups á þessum ásökunum og engin sjálfstæð ákvörðun vegna þeirra tekin í framhaldinu.“ Í staðinn hafi Ólafi bara verið veitt lausn og svo hafi verið vísað til úrskurða innan kirkjunnar í rökstuðningi.

Þeirri tímabundnu lausn úr starfi var vísað til nefndarinnar, sem hóf að meta hvort hún væri réttmæt. Nefnd af þessum toga gerir kröfu um að fyrir liggi ásökun um refsiverða háttsemi er varði hegningarlög og taldi hún í þessu tilfelli að svo væri ekki. Rökstuðningur biskups hafi falist í að vísa til úrskurða sem gerðir höfðu verið innan vébanda kirkjunnar. Það taldist ekki nægjanlegt fyrir nefndinni, því að í þeim úrskurðum hafi niðurstaðan verið sú að engin refsiverð háttsemi hafi átt sér stað.

Um er að ræða ásakanir fimm kvenna á hendur Ólafi um kynferðislega áreitni. Málið fór á sínum tíma fyrir bæði úrskurðar- og áfrýjunarnefnd kirkjunnar og í báðum þeim nefndum var tímabundna lausnin frá starfi dæmd réttmæt en málið þó metið svo, að engin refsiverð háttsemi hafi átt sér stað samkvæmt lögum.

Ekki tekin afstaða til mögulegrar ætlaðrar refsiverðrar háttsemi

Nefndin áréttar í ályktun sinni, sem mbl.is hefur undir höndum, að ekki sé með þessu áliti tekin afstaða til „mögulegrar ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem slíkrar, heldur einvörðungu að ekki hafi verið sýnt fram á að grunur hafi verið fyrir hendi um að sóknarpresturinn hafi gerst sekur um háttsemi sem kynni að vera refsiverð og þar með að grunur hafi verið fyrir hendi um refsiverða háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.“

Umrædd nefnd um lausnir ríkisstarfsmanna segir að í bréfi Agnesar biskups til Ólafs frá tíma þeim sem honum var gefin lausn úr starfi, sé ekki lýst fyrir honum háttseminni sem hann á að hafa gerst sekur um, né sé vísað til tiltekinna refsiákvæða sem hegðun hans hafi kunnað að varða við.

Annar prestur hefur þjónað í Grensásprestakalli í fjarveru Ólafs en það hefur verið lagt niður og sameinað Fossvogsprestakalli.

mbl.is