„Það var bömmer“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, missti af framlagi Íslands.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, missti af framlagi Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekkert hlé var gert á þingstörfum vegna Eurovision og hélt umræða um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins því ótrauð áfram. 

„Það var náttúrulega bömmer. Það var enginn að fylgjast með held ég þegar ég flutti ræðuna mína sem ég var búin að undirbúa í dágóðan tíma,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is um hvernig var að halda ræðu um þriðja orkupakkann á meðan framlag Íslands í Eurovision var flutt.

„Þetta fellur í skuggann af Eurovision,“ segir hún. Silja Dögg segir ekki gert hlé á þingstörfum vegna keppninnar. „Nei nei, hér er bara haldið áfram að vinna eðlilega. Þetta er líka mjög skemmtileg umræða. Held hún sé bara skemmtilegri en Eurovision. Þetta er mjög áhugavert allt saman og gaman að ræða þetta.“

Ekki örvænta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, virðist sammála Silju Dögg um hversu skemmtileg umræðan er um orkupakkann. Hann segir á Facebook ekki ástæðu til þess að örvænta. „Þótt Eurovision sé í beinni útsendingu í sjónvarpinu er hægt að horfa á 3. orkupakkann í beinni á Alþingisvefnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina