Atvinnuleysisbætur mörgum milljörðum hærri

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Viðbúið er að atvinnuleysisbætur á þessu ári muni rjúka upp og verða mörgum milljörðum hærri en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra meðal annars á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Benti Oddný á að einungis átta þingdagar væru eftir af þinginu fyrir utan daginn í dag. Von væri á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í næstu viku sem yrði væntanlega mikið breytt í ljósi „óhagstæðrar hagspár sem Hagstofan kynnti á dögunum.“

Lýsti Oddný áhyggjum af tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar og spurði Bjarna hvort hann deildi þeirri skoðun ýmissa stjórnarþingmanna að ekki væri ástæða til þess í ljósi afgangs af ríkisfjármálum. Benti hún á að ströng skilyrði fyrir því hvenær mætti breyta fjármálastefnu ríkisstjórna sem sett væri og samþykkt af Alþingi.

„Það sem við erum að glíma við núna, eftir að ný hagspá var birt á föstudaginn, er mesta breyting í hagvexti sem við höfum séð í áratugi þegar hrunið er tekið til hliðar, þ.e. það er mesta breyting til hins verra á milli spágerða. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er sú hvort mér beri ekki hreinlega, og ég hallast að því, að koma með nýja fjármálastefnu sem markar þá sporin fyrir framtíðina,“ sagði Bjarni.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert
mbl.is