Framfærsla styrktra doktorsnema hækkuð

Styrkþegar í doktorsnámi í Háskóla Íslands fá „launahækkun“ úr 330.000 …
Styrkþegar í doktorsnámi í Háskóla Íslands fá „launahækkun“ úr 330.000 kr. í 425.000 kr. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mánaðarlegur framfærslustyrkur doktorsnema á styrk hjá doktorssjóðum Háskóla Íslands hefur hækkað úr 330.000 krónum á mánuði í 425.000. 30 doktorsnemar hlutu styrk í ár af 144 umsækjendum. Þeir fá þennan styrk mánaðarlega í ár.

Hækkunin er sögð liður í stefnu háskólans að efla umgjörð doktorsnáms. Önnur ný viðbót sem miðar að því sama er að nýjum styrkjum fylgir nú rekstrarfé við upphaf styrksins upp á 300.000 krónur, sem unnt verður að nota við „rekstur doktorsverkefnisins“. Hann getur verið margvíslegs eðlis.

Hækkunin kallast á við þær breytingar sem urðu á kjarasamningi flestra taxtastarfsmanna á almennum markaði með lífskjarasamningnum í apríl.

Verkefnin sem styrkt eru í ár eru af öllum stærðum og gerðum en að vonum er alls staðar um að ræða eiginlegt doktorsnám við Háskóla Íslands. Styrkir fara til nema á öllum sviðum háskólans en flestir til nema á verkfræði- og náttúruvísindasviði. 10 nemar fá þar styrk. Svo kemur hugvísindasvið, með 7 styrkþega. Fæstir styrkir eru gefnir til doktorsnema á menntavísindasviði, nefnilega aðeins þrír.

Verkefnin sem unnið er að eru margs konar. Eitt fjallar um konur sem hafna móðurhlutverkinu, hið næsta um íþyngjandi dagsyfju og þar næsta um norræna melankólíu í Artúrsbókmenntum. Og þá er ekki minnst á ritgerðina sem fjallar um rafefnafræðilega ammóníaksmyndun hvataða með málmsúlfíðyfirborðum.

Styrkirnir verða veittir úr sameinuðum doktorssjóðum skólans og inni í þeim eru stakir rótgrónir sjóðir eins og Rannsóknarsjóður HÍ og Háskólasjóður Eimskipafélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina