Greiða fyrrum maka föður síns milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær tvo bræður til að greiða …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær tvo bræður til að greiða fyrrverandi maka föður síns 1,7 milljón króna. mbl.is/Ófeigur

Bræður tveir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær til þess að endurgreiða fyrrverandi konu látins föður þeirra tæpa 1,7 milljónir króna. Endurgreiðslan kemur til af innlögnum sem konan hafði gert á reikning hins látna, að sögn til þess að varna þess að kröfur honum á hendur færu í vanskil.

Bræðurnir greiða konunni einnig málskostnað upp á 1.200.000 krónur. 

Konan og hinn látni höfðu hafst við að nokkru leyti í íbúð á Spáni, sem var skráð í eigu hins látna. Parið hafði þó aðskilinn fjárhag og þegar hann lést vildi konan eignast íbúðina. Greiddi konan að eigin sögn afborgun af íbúðaláninu, svo að það færi ekki í vanskil.

Sonum mannsins féll íbúðin í skaut þegar hann lést sumarið 2015. Í dómnum segir að konan hafi látið bræðurna vita undir lok árs 2015 að hún hefði hug á að kaupa íbúðina af þeim. Því hafi hún haldið áfram að greiða eftirstöðvar lánsins. Hún gerði kauptilboð í íbúðina 2016 en því var ekki tekið. 2017 gerði hún því kröfu um að henni yrði endurgreitt féð sem hún hafi sett í afborgunina. Við því var ekki orðið.

Í rökstuðningi hinna stefndu bræðra um það hvers vegna þeir töldu ekki rétt að endurgreiða henni féð kom fram að þeir kváðust ekki vita hvert umræddir peningar höfðu farið. Fram kemur þó að þeir hafi ítrekað frestað meðferð málsins til þess að afla gagna til að sýna fram á að peningarnir hefðu ekki borist til þeirra en að þau gögn hafi aldrei borist dómnum. Hins vegar komu fram gögn frá konunni sem þóttu sýna að greiðslurnar hefðu átt sér stað.

Sýnt þótti að greiðslurnar hefðu átt sér stað og að tilgangur konunnar með greiðslunum hafi verið að forða bankalánum frá því að fara í vanskil og sömuleiðis að smám saman kaupa bræðurna út úr íbúðinni. Þar sem þeir gáfu ekki kost á því var þeim gert að endurgreiða henni féð, 1.660.531 krónur ásamt dráttarvöxtum.

mbl.is