Harmar viðbrögð atvinnurekenda

Frá hátíðarhöldum í Reykjavík 1. maí.
Frá hátíðarhöldum í Reykjavík 1. maí. mbl.is/​Hari

Miðstjórn ASÍ harmar viðbrögð þeirra atvinnurekenda sem í kjölfar nýgerðra kjarasamninga hafa gripið til uppsagna á launakjörum starfsmanna sinna að sögn vegna þess kostnaðarauka sem til kemur vegna gildistöku þeirra.

Þetta kemur fram í ályktun frá miðstjórninni þar sem skorað er á atvinnurekendurna að draga uppsagnirnar til baka.

„Jafnframt áskilur ASÍ öllum aðildarsamtökum sínum rétt til þess að lýsa yfir einhliða riftun nýgerðra kjarasamninga við þessa sömu atvinnurekendur vegna þess ásetnings þeirra að ætla sér ekki að virða þá og hrinda í framkvæmd,“ segir í ályktuninni.

„Jafnframt er samtökunum áskilinn réttur til þess í kjölfarið að hefja aðgerðir til þess að knýja á um gerð nýs kjarasamnings við viðkomandi aðila og til þess að beita öllum tiltækum og lögmætum þvingunaraðgerðum til þess að knýja á um gerð þeirra, þar með talið með verkföllum.“

Efling fagnar ályktuninni

Efling fagnar ályktun miðstjórnar ASÍ í tilkynningu sinni. „Þetta er ekkert annað en tímamótayfirlýsing. Forysta ASÍ styður aðildarfélögin alla leið og ætlar ekki að láta bjóða sér að kjarasamningar séu virtir að vettugi. Við undirrituðum kjarasamning til að færa félagsmönnum raunverulega kjarabót, ekki til að leyfa atvinnurekendum undanbrögð og tilfærslur úr hægri vasanum í vinstri vasann,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

„Það er mjög gott að finna að verkalýðshreyfingin stendur sameinuð. Það er hárrétt hjá ASÍ að friðarskyldan er ekki sjálfsagður hlutur. Gróf og vísvitandi kjarasamningsbrot aðildarfyrirtækja SA hljóta að setja hana í uppnám.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert