Kajakræðari komst sjálfur í land

Frá vettangi í kvöld.
Frá vettangi í kvöld. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Meiriháttar viðbúnaður viðbragðsaðila fór í gang þegar kajakræðari fór í sjóinn af kajak sínum við Geldinganes í Grafarvogi á níunda tímanum í kvöld. Honum var að endingu hjálpað í land af félaga sínum sem var líka á kajak. Maðurinn er ekki í hættu en verður fluttur á slysadeild.

Björgunarsveitir voru komnar í startholurnar og slökkviliðið sendi sex bíla, bát og kafara á vettvang þegar tilkynning barst um málið kl. 20.30. Gert var ráð fyrir að þetta gæti farið á versta veg. Svo var ekki og þegar menn komu á vettvang hafði manninum verið komið í land, hálftíma eftir að fyrsta útkallið barst.

Hann var blautur og hrakinn, kaldur og þrekaður en kominn á þurrt land heilu og höldnu. Menn eru enn á vettvangi og að líkindum verður maðurinn sendur á slysadeild í skoðun.

Maðurinn var á siglingu úti við Geldinganes.
Maðurinn var á siglingu úti við Geldinganes. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is