Krimmahöfundar láta sverfa til stáls

Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson vilja breytingar.
Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson vilja breytingar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum ekki að tala um að það eigi að kasta hinu fyrir róða. Við teljum bara að glæpasagnahöfundar eigi að fá sanngjarnari skerf af því sem er til skiptanna. Það er fólk í okkar röðum sem þarf á því að halda,“ segir Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.

Yrsa og Ragnar Jónasson kollegi hennar fluttu fyrirlestur á fundi í Þjóðminjasafninu í liðinni viku á norrænum formannafundi útgefendafélaga. Þar röktu þau sögu íslensku glæpasögunnar og skort á stuðningi við þessa bókmenntagrein, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Í tölum sem Yrsa og Ragnar lögðu fram má sjá að glæpasagnahöfundar hafa fengið innan við 1% af listamannalaunum úr launasjóði rithöfunda síðasta áratuginn. Glæpasagnahátíðin Iceland Noir fær einungis tíu prósent af þeim styrkjum sem Bókmenntahátíð fær. Ekki fást styrkir til þýðinga glæpasagna á íslensku. Þýðingar íslenskra glæpasagna á erlend tungumál fá minna af styrkjum en aðrar bókmenntagreinar.

Glæpasögur voru 27% nýrra íslenskra frumsaminna skáldverka árin 2017 og 2018. Í nýrri könnun sem Félag íslenskra bókaútgefenda lét gera kemur í ljós hversu víðtækur áhugi landsmanna á glæpasögum er. Þátttakendur voru spurðir hvers konar bækur þeir hefðu helst áhuga á að lesa eða hlusta meira á. 62% svarenda sögðust helst vilja lesa meira af spennusögum.

„Glæpasögur spegla samfélagið okkar á hverjum tíma. Þessi mýta um að flokka eigi glæpasögur sem öðruvísi bókmenntir en aðrar eða síðri er eitthvað sem við þurfum að skoða og velta upp,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »