Lenti á strætóskýli og velti bílnum

Fyrir mikla mildi slasaðist enginn, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra …
Fyrir mikla mildi slasaðist enginn, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður, sem ekki var allsgáður undir stýri, missti stjórn á bifreið sinni á Fífuhvammsvegi við Smáralind í Kópavogi snemma í morgun með þeim afleiðingum að hann lenti á strætóskýli og velti bifreiðinni.

Fyrir mikla mildi slasaðist enginn, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar í Kópavogi. Ökumaðurinn var þó fluttur á slysadeild til aðhlynningar með minni háttar áverka. Fyrst var greint frá á Vísi.

Þaðan var hann svo fluttur í fangaklefa lögreglunnar á Hverfisgötu, en við rannsókn kom í ljós að hann ók undir áhrifum fíkniefna. Verður hann yfirheyrður þegar áhrifin renna af honum.

Vegfarandi tilkynnti um atvikið kl. 6:25 í morgun. Ökumaður gaf þær skýringar að hann hefði ekið í poll og misst stjórn á bílnum.

mbl.is