Innleiðing áhættumats getur verið flókin

Vatn flæðir hér yfir undirgöng í Elliðaárdalnum fyrir nokkrum árum. …
Vatn flæðir hér yfir undirgöng í Elliðaárdalnum fyrir nokkrum árum. Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Það eru ekki mörg sveitarfélög á Íslandi sem hafa sett sér stefnu um aðlögun í loftslagsmálum. Þetta kom fram í máli bæði Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur, forstjóri Skipulagsstofnunar, og  Hrannar  Hrafnsdóttur, sérfræðings á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, á ráðstefnu sem Lofts­lags­ráð stend­ur fyr­ir í dag um aðlög­un Íslands að lofts­lags­breyt­ing­um.

Sagði Ásdís Hlökk rannsókn sem gerð var 2015 hafa sýnt að sveitarfélög hér á landi séu almennt meðvituð um tengsl skipulags og loftslagsbreytinga, en að þau beiti sér mismikið í þeim efnum. Reykjavíkurborg skeri sig úr hvað þetta varðar. Sveitarfélög hafi því tækifæri á að taka á loftslagsbreytingum af meiri myndugleika við skipulagsgerð en gert sé í dag.

Hrönn benti á að Reykjavíkurborg haf sett sér stefnu um um aðlögun að  loftslagsmálum og þannig sé til að mynda horft til  hækkunar sjávarstöðu við skipulag byggðar.

Björgunarsveitir aðstoða bíla í Kópavogi síðasta vetur þegar fráveitur höfðu …
Björgunarsveitir aðstoða bíla í Kópavogi síðasta vetur þegar fráveitur höfðu ekki undan vegna hláku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sagði hún yfirborðshækkun sjávar, flóð, sjávarflóð, flóð frá ám, vötnum og fráveitukerfum vegna meiri úrkomu og skýfalla,sem og aukin tíðni ofsaveðurs og breytingar á lífríki á sjó og landi vera meðal þeirra verkefna sem áhættumat borgarinnar bendi á að horfa þurfi til.

Áhættumat getur þó verið ólíkt fyrir mismunandi staði hér á landi, rétt eins og sveitarfélögin sjálf.  „Hvernig er hægt að mæta slíkri áhættu? Það getur verið ólíkt milli staða,“ sagði hún og nefndi sem dæmi ólíkar aðstæður í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði. Innleiðingin geti því verið flókin og við mótun slíkrar stefnu þurfi hins vegar vöktun, mat og gott stuðningslíkan.

mbl.is