Lækkun dagpeninga ríkisstarfsmanna

Dagpeningar vegna ferða ríkisstarfsmanna innanlands lækka miðað við sama tímabil …
Dagpeningar vegna ferða ríkisstarfsmanna innanlands lækka miðað við sama tímabil í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi

Ferðakostnaðarnefnd hefur ákveðið dagpeninga til gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands fyrir sumarið og vekur athygli að gistikostnaður í sumar er áætlaður 16,2% minni en á sama tíma í fyrra.

Nefndin hefur ákveðið að dagpeningar vegna gistingar og fæðu í einn sólarhring verði nú 32.500 krónur og gisting í einn sólarhring 20.600 krónur. Í fyrra var kostnaður við gistingu og fæðu í einn sólarhring metinn 35.900 krónur og gisting í einn slólarhring 24.600 krónur.

Er því gert ráð fyrir að kostnaður vegna gistingar ríkisstarfsmanna við ferðalög innanlands í sumar verði 16,2% lægri en á sama tíma í fyrra. Í fyrra tók ný gjaldskrá gildi fyrsta júní, en 15. maí að þessu sinni.

Þá er gert ráð fyrir kostnað við fæði hvern heilan dag (minnst 10 tíma ferðalag) 11.900 krónur sem var 11.300 á sama tíma í fyrra. Kostnaður vegna fæðis í hálfan dag (minnst 6 tíma ferðalag) 5.900 krónur, en var 5.650 á sama tíma á síðasta ári.

mbl.is