„Ótrúlega stolt af Vogaídýfunni“

Íþróttavöllur Vals á Hlíðarenda í Reykjavík er ekki kenndur við …
Íþróttavöllur Vals á Hlíðarenda í Reykjavík er ekki kenndur við félagið heldur fyrirtækið Origo. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég öfunda ekki íþróttafélög á Íslandi af þeirra rekstrargrundvelli. Það eru stórir kostnaðarliðir sem þarf að standa undir og eðlilegt að menn leiti allra leiða til fjáröflunar,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.

Íslandsmótið í knattspyrnu er nýhafið og athygli hefur vakið að sífellt fleiri vellir virðast nefndir eftir fyrirtækjum eða vörumerkjum sem styrkja liðin. Það er af sem áður var að knattspyrnuunnendur fóru á Hlíðarenda eða á Valbjarnarvöll. Nú er leikið á Origo-vellinum eða Eimskipsvellinum. Sitt sýnist hverjum en ljóst virðist að þessi markaðsvæðing er komin til að vera.

Klara segir að augljóst sé af þeim fjölda valla sem nú bera heiti kostenda að félögin sjá sér akk í þessu fyrirkomulagi. KSÍ hafi þó ekki neinar upplýsingar um hversu miklum tekjum það geti skilað liðum að selja nafn vallarins með þessum hætti.

Klara Bjartmarz.
Klara Bjartmarz. mbl.is/Golli

Aðspurð segir Klara að engar reglugerðir séu hjá KSÍ um nafngiftir valla. Þær þurfi vitaskuld að vera í samræmi við landslög og eðlilegt sé að þær vinni ekki gegn hugsjón íþróttanna.

Leggja sitt af mörkum

Talsverður munur er á því eftir hvers konar fyrirtækjum vellirnir eru nefndir. Þannig virðast liðin í efstu deildunum laða að sér stórfyrirtæki. Í neðri deildunum og á landsbyggðinni eru styrktaraðilarnir gjarnan smærri og oft tengdir viðkomandi liði eða bæjarfélagi með einhverjum hætti. KA keppir á Greifavellinum, Víðir í Garði á Nesfisk-vellinum, Fjarðabyggð á Eskju-vellinum og Grótta á Vivaldi-vellinum. Sú tenging er komin frá því að stofnandi netvafrafyrirtækisins Vivaldi, Jón von Tetzchner, er af Seltjarnarnesi og vill leggja sitt af mörkum til íþróttastarfs í bænum.

Samfélagið er þakklátt

Eitt vallarnafn sker sig nokkuð úr þetta árið. Völlur Þróttar í Vogum kallast nú Vogaídýfuvöllur.

Marteinn Ægisson í Vogaídýfu-treyju frá árinu 1990.
Marteinn Ægisson í Vogaídýfu-treyju frá árinu 1990.

Klara segir aðspurð að nafnið hafi óneitanlega vakið athygli. „Þessi nafngift kom á óvart. Sumir brostu út í annað,“ segir hún. Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum, segir að völlurinn hafi síðustu ár kallast Vogabæjarvöllur, eftir fyrirtækinu sem framleiðir Vogaídýfuna, en þetta sé fyrsta árið sem hann kallast Vogaídýfuvöllurinn. Samstarf og stuðningur fyrirtækisins við íþróttastarf í bænum eigi sér langa sögu og þetta sé mikilvæg tekjulind.

„Vogabær var upphaflega stofnað í Vogunum og við höfum verið svo lánsöm að eigendur fyrirtækisins hafa haldið tengslunum þó að fyrirtækið hafi flutt héðan árið 2006. Þau hafa stutt við starfið hér og fyrir það eru við þakklát. Við í Þrótti erum sverð og skjöldur fyrir ungmenni í sveitarfélaginu og þetta er rosalega góður stuðningur við forvarnarstarfið,“ segir Marteinn.

Hann segir að aldrei hafi komið neinar athugasemdir við umrætt samstarf, jafnvel þótt mæjónesídýfa sé ekki beint það fyrsta sem maður tengir við íþróttir. „Við höfum alltaf verið ótrúlega stolt af Vogaídýfunni. Hún er sko til á hverju heimili hér og rennur aldrei út. Samfélagið okkar er þakklátt ef íþróttastarfið nýtur góðs af þessum tengslum við uppruna Vogaídýfunnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »