Þurfum að aðlagast loftslagsaðgerðum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir aðlögun að loftslagsbreytingum …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir aðlögun að loftslagsbreytingum krefjast nýs hugsunarháttar. mbl.is/Eggert

Við munum þurfa að aðlagast loftslagsbreytingum þrátt fyrir mótvægisaðgerðir,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu við upphaf ráðstefnu sem loftslagsráð stendur fyrir um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.

Sagði Guðmundur Ingi slíkt kalla á nýjan hugsunarhátt, „rétt eins og ofanflóðavarnir“, og kvað hann gera þurfa greinarmun á mótvægisaðgerðum og aðlögunaraðgerðum.

Reyna þurfi að grípa til aðgerða til að auka viðnámsþrótt og nefndi ráðherra þar rannsóknir, vöktun og framkvæmdir sem dæmi um aðferðir til að gera slíkt.

„Aðlögun krefst nýs hugsunarháttar,“ sagði Guðmundur Ingi. „Þetta er ný vídd í skipulagi samfélagsins sem er komin til að vera til langs tíma.“

Sagði ráðherra vinnu við aðlögunaráætlun, þeirrar fyrstu sem gerð sé fyrir Ísland, hafa hafist eftir að hann tók við embætti. Mikilvægt sé að setja í lög hvernig beri að gera þetta og hafi loftslagsráð verið beðið um að veita stjórnvöldum ráðgjöf um hvernig standa megi að þeirri aðlögun.

Ekki hægt að bregðast við súrnun sjávar

„Við erum þó ekki alveg á byrjunarreit,“ bætti hann við. Hraða þurfi þó aðgerðum á þeim sviðum þar sem þegar liggi fyrir hvað gera þurfi, þar sem slíkt leggi grunninn að frekari forvörnum.

„Við þurfum þó að gera okkur grein fyrir því að aðlögun að loftslagsvánni eru takmörk sett,“ sagði Guðmundur Ingi. Ekki sé hægt að bregðast við öllu og súrnun sjávar sé eitt skýrasta dæmið um slíkt.

„Þegar við erum að grípa til mótvægisaðgerða þá þurfum við hins vegar að huga að því hvernig samlegðaráhrifum mismunandi umhverfismála er hægt að ná fram,“ sagði ráðherra og nefndi sem dæmi þegar seyra sé nýtt til áburðar. „Þá erum við að vinna í anda hringsrásar hagkerfis að fleiri en einu máli í einu og við þurfum að horfa til tenginganna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina